Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mynd um kynferðisbrot og viðbrögð samfélagsins

Mynd: RÚV / RÚV

Mynd um kynferðisbrot og viðbrögð samfélagsins

19.03.2018 - 18:18

Höfundar

„Sagan er um dreng sem er í menntaskóla á lokaári og hann er ásakaður um gróft kynferðisbrot gagnvart bekkjarsystur sinni. Þetta fjallar um afleiðingar þess fyrir aðstandendur og meinta gerendur og þolendur,“ segir María Reyndal, leikstjóri og handritshöfundur Mannasiða, páskamyndar RÚV í ár.

Sagan spannar um 10 mánuði og fjallar um víðtæk áhrif kynferðisbrota, umræðunnar um þau, og viðbragða samfélagsins. Hvaða áhrif meint kynferðisbrot hefur á gerandann, andlega og félagslega, og hvernig bregst fjölskylda hans við álaginu. Hún veltir upp spurningum um hvort tvær manneskjur geti upplifað sama verknaðinn á gjörólíkan hátt og áhrif klámvæðingar á hugarfar ungs fólks.

„Ég byrjaði á þessu 2012, fyrir meira en fimm árum síðan,“ segir María. „En það trúir því enginn þegar hann les handritið því það er eins og þetta hafi verið skrifað inn í samtímann og samfélagsumræðuna. Stundum er maður aðeins á undan og þarf að bíða eftir að samfélagið sé tilbúið. Ég held að þessi mynd sé að koma núna á hárréttum tíma inn í umræðuna.“ Í ferlinu breyttist þó margt, til að mynda var sagan fyrst gerð að útvarpsleikriti sem kom út síðastliðið sumar. „Þá var #metoo byltingin ekki byrjuð, þannig við skrifuðum það inn í verkið. En frá því ég byrjaði að skrifa þetta hefur mér alltaf fundist ég vera of sein með þetta, mér hefur fundist umræðan alltaf vera í hámarki frá 2012.“

Mynd: Björg Magnúsdóttir / Björg Magnúsdóttir
Lagið „Hringi aldrei aftur“ er aðalsmellur hljómsveitarinnar Emojionals í myndinni. Lagið er samið og tekið upp af Loga Pedro og sungið af Eysteini Sigurðarsyni aðalleikara. Á myndinni eru Logi Pedro og María leikstjóri og handritshöfundur.

Með aðalhlutverk í myndinni fara Eysteinn Sigurðarson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Álfrún Laufeyjardóttir. Höfundur tónlistar er Úlfur Eldjárn en Logi Pedro semur einnig frumsamin lög fyrir myndina, en aðalpersónan sem Eysteinn leikur er í hljómsveit. „Ég kem inn í ferlið sem lagahöfundur fyrir hljómsveitina sem er í myndinni, Emojionals. Svo kem ég líka eitthvað að því að láta músík inn í aðrar senur, leyfa myndinni að nota minn hljóðheim,“ segir Logi Pedro.

Listaverk, ekki forvarnarmynd

Efnið í myndinni er afar eldfimt svo ekki sé meira sagt, þarf ekki að stíga varlega til jarðar í umræðu í þessum málaflokki? „Ég held að maður þurfi að aðallega að vita hvað maður er að segja,“ segir María og bætir við að árin fimm sem fóru í handritið hafi nýst vel í forvinnu, hún hafi meðal annars lesið ótal bækur og setið marga fyrirlestra um kynferðisbrot. En hún tekur einni fram að þetta sé saga þessara einstaklinga, sem lenda í vissum aðstæðum og bregðast við með ákveðnum hætti. „Við erum ekki að predikera að við séum með einhverja lausn á þessum vandamáli. Þetta er listaverk, ekki forvarnarmynd.“

En hvernig ætli ungir karlar taki myndinni og þessari umræðu? „Við sitjum kannski bara og hlustum. Ég man þegar ég var í MH voru hlutir eins og kynjafræði mjög fjarlægir, en eftir því sem leið á menntaskólagönguna jókst umræðan. Það breytti miklu og sit eiginlega bara hjá og hlusta. Held það sé það eina sem ég get gert á þessum tímapunkti.“

Mannasiðir er sjónvarpsmynd í tveimur hlutum sem verður sýnd á RÚV á páskadag og annan í páskum.