Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Musk sagt hvað hann má ekki tísta um

epa04049808 Elon Musk, co-founder and CEO of Tesla, poses with a model of the brand during a visit to Amsterdam, The Netherlands, 31 January 2014. The European Tesla Service is based in Tilburg and the European headquarters in Amsterdam.  EPA/JERRY LAMPEN
Elon Musk, stofnandi Teslu.  Mynd: EPA - ANP
Bandaríski frumkvöðullinn Elon Musk og viðskiptaráð Bandaríkjanna hafa náð samkomulagi um hvað Musk má birta í Twitterfærslum sínum. Þetta tilkynntu Musk og nefndin dómstól í Bandaríkjunum í dag. Meðal þess sem Musk má ekki ræða á Twitter eða öðrum samfélagsmiðlum eru upplýsingar um yfirtökur, sameiningu, nýjar vörur og framleiðslunúmer. Eins verður hann að ráðfæra sig við lögmenn Tesla áður en hann sendir frá sér færslu á Twitter um fyrirtækið samkvæmt samkomulaginu, að sögn AFP.

Viðskiptaráðið segist sátt við það sem lagt er fram í samkomulaginu. Lokaniðurstaða þess verður lögð fyrir dómara eftir helgi til samþykkis. Ráðið vildi upphaflega að Musk yrði sóttur til saka fyrir að óhlýðnast við lögmætan úrskurð dómstóls um að hann ætti að hætta að skrifa um viðkvæm viðskiptamál á Twitter. Fyrr í mánuðinum bað dómarinn, Alison Nathan, málsaðila um að reyna að komast að samkomulagi áður en málið færi fyrir dóm.

Musk kom sér í vandræði í viðskiptaheiminum í ágúst í fyrra þegar hann sagði frá því á Twitter að hann ætlaði að taka Tesla af markaði. Hann náði samkomulagi við viðskiptaráð Bandaríkjanna í október um að hann viki úr sæti stjórnarformanns Tesla, og greiddi 20 milljón dala sekt fyrir að ljúga að fjárfestum. Viðskiptaráðið hafði aftur afskipti af Musk í febrúar þegar hann skrifaði á Twitter að Tesla ætlaði að framleiða 500 þúsund bíla á þessu ári, í stað 400 þúsund eins og fyrirtækið hafði greint frá áður. Fjórum klukkustundum síðar leiðrétti Musk færsluna og sagði 400 þúsund bíla verða framleidda.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV