Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Múrbúðin kærir Byko

23.01.2012 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Múrbúðin hefur kært Byko til Neytendastofu vegna auglýsingaherferðar sem Byko hóf um áramótin. Neytendastofa hefur gefið Byko frest til andsvara til vikuloka.

Í kærunni er bent á að í herferðinni sé talað um varanlega allsherjar verðlækkun á öllum vörum verslunarinnar og að meðaltalsverðlækkun sé tíu til fimmtán prósent. Verðkönnun bendi til miklu minni lækkunar eða tvö til sex prósent. Þriðjungur vara hafi lækkað um þau 10 til 15 prósent sem auglýst séu, en 67 prósent hafi lækkað minna, ekkert lækkað eða jafnvel hækkað í verði.

Í kærunni segir að fullyrðingar um allsherjar verðlækkun á öllum vörum Byko séu villandi og ósannar enda hafi afslættir verið felldir niður á sama tíma. Því sé ljóst að auglýsinga- og kynningarherferð sem Byko hóf eftir áramótin innihaldi ósannar fullyrðingar í þeim tilgangi að gefa neytendum rangar og villandi upplýsingar. Hjá Neytendastofu fengust þær upplýsingar að kæran hefði borist fyrir helgi og á föstudag hafi Byko verið veittur sjö daga frestur til andsvara.