Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Munu fara að fordæmi Skútustaðahrepps

27.10.2016 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Oddviti Þingeyjarsveitar segir að sveitarstjórn sé nú þegar farin að skoða hvað hefði farið úrskeiðis við veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Þeistareykjalínu. Sveitarstjórn muni fara sömu leið við afgreiðslu nýs framkvæmdaleyfis og Skútustaðahreppur.

Framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu sem Þingeyjarsveit gaf út var í dag gert ógilt af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu stendur hinsvegar óhaggað. 

„Við auðvitað unum þessum úrskurði. Það er ánægjulegt að framkvæmdaleyfið fyrir Kröflulínu 4 skuli standa. Nú, við erum bara í þessum töluðum orðum að fara í gegnum úrskurðinn og röksemdir úrskurðanefndar út af Þeistareykjalínu. Eins og gengur í réttarríki þá eru úrskurðanefndir til að fella úrskurði og við förum í það að taka mið af niðurstöðu hennar og förum að undirbúa útgáfu nýs framkvæmdaleyfis,“ segir Arnór Benónýsson, oddviti í Þingeyjarsveit.

Skútustaðahreppur gaf í gær út nýtt framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, eftir að úrskurðarnefnd hafði fellt leyfi sem sveitarfélagið gaf út í vor úr gildi. Farið verður að fordæmi þess sveitarfélags.

„Já, það er þétt samstarf með sveitarfélögunum og við förum svipaða leið,“ segir Arnór.