Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mun sterkari utan kjörfundar en á kjördag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Munurinn á Guðna Th. Jóhannessyni, næsta forseta Íslands, og Höllu Tómasdóttur var mun minni þegar litið er til atkvæða sem féllu á kjörfundi á laugardag heldur en þeirra sem greidd voru utan kjörfundar síðustu tæpu tvo mánuðina. Guðni hefði þó alltaf sigrað Höllu, hvort sem litið er til allra atkvæða, atkvæða þeirra sem kusu á laugardag eða þeirra sem kusu utan kjörfundar. Þetta kemur fram í tölum sem fréttastofa hefur undir höndum.

Mjög dró saman með Guðna og Höllu síðustu dagana fyrir kjördag samkvæmt skoðanakönnunum og enn frekar þegar talið var upp úr kjörkössunum aðfaranótt sunnudags. Fréttastofa hefur undir höndum sundurliðaðar tölur úr þremur kjördæmum um það hvernig atkvæði féllu annars vegar á kjörfundi á laugardag og hins vegar í utankjörfundaratkvæðagreiðslum.

Allt að þrettán prósenta sveiflur hjá hvoru um sig

Guðni hlaut 38,5 prósent atkvæða í Reykjavík suður og Halla 23,5 prósent. 47,4 prósent þeirra sem kusu utan kjörfundar völdu Guðna en 35,7 prósent þeirra sem kusu á kjörfundi. Munurinn er 11,7 prósentustig. Halla hlaut 9,6 prósentustigum fleiri atkvæði á kjörfundi á laugardag, 25,8 prósent, en í utankjörfundaratkvæðagreiðslu, 16,1 prósent.

Svipuð tilfærsla átti sér stað í Reykjavík norður. Þar kusu 44,9 prósent Guðna í utankjörfundarkosningu en 33,1 prósent á kjörfundi. Munurinn er 11,8 prósentustig. Halla fékk atkvæði 24,2 prósenta þeirra sem kusu á kjörfundi á laugardag en 15,3 prósent kusu hana utan kjörfundar. Munurinn er 8,9 prósent. Guðni hlaut 36,0 prósent allra gildra atkvæða í kjördæminu en Halla 22,0 prósent.

Minni munur var á öðrum frambjóðendum í Reykjavíkurkjördæmunum. Mestu munaði hjá Andra Snæ Magnasyni í Reykjavík norður. Þar fékk hann þremur prósentustigum betri útkomu á kjörfundi en utan kjörfundar, 24,5 prósent á móti 21,5 prósentum.

Guðni með meirihluta utan kjörfundar

Mesti munurinn milli kjörfundar og atkvæða utan kjörfundar var í Norðausturkjördæmi, miðað við þær tölur sem fréttastofa hefur undir höndum. Guðni hlaut atkvæði meirihluta þeirra sem greiddu atkvæði utan kjörfundar, 54,6 prósent, en 41,9 prósent þeirra sem kusu á laugardag merktu við Guðna. Munurinn er 12,7 prósentustig. Þetta var það kjördæmi þar sem Guðni fékk besta kosningu, fékk samtals 45,1 prósent.

Halla bætti við sig 13,0 prósentustigum frá utankjörfundarkosningu til kjörfundar. 21,4 prósent þeirra sem kusu utan kjörfundar í Norðausturkjördæmi völdu Höllu en 34,3 prósent þeirra sem mættu á kjörstað á laugardag kusu hana.

Allt talið saman í þremur kjördæmum

Ekki fengust sundurliðaðar tölur úr Suðvesturkjördæmi, Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Þar voru atkvæði greidd utan kjörfundar talin með atkvæðum greiddum á kjörstað. Því er ekki hægt að sundurgreina þær.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV