Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mun „rústa“ efnahag Tyrkja ráðist þeir á Kúrda

14.01.2019 - 00:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, varaði Tyrki við því á Twitter í kvöld, að þeirra biði efnahagslegt hrun ef þeir réðust á Varnarsveitir Kúrda eftir að Bandaríkjaher hverfur frá svæðinu. Þá hvatti hann Kúrdana til að hætta að ögra Tyrkjum.

„Mun rústa Tyrkneskum efnahag ef þeir ráðast á Kúrda," skrifaði forsetinn og kallaði eftir 30 kílómetra „öryggissvæði" en tiltók ekki hvar það ætti að vera eða hvernig haga ætti eftirliti og fjármögnun þess.  

„Einnig, vil ekki að Kúrdar ögri Tyrkjum. Rússland, Íran og Sýrland hafa notið mests góðs af langtímastefnu Bandaríkjanna um að ráða niðurlögum Íslamska ríkisins í Sýrlandi - náttúrulegir óvinir okkar. Við græðum líka en nú er kominn tími til að flytja okkar hermenn heim. Stöðvið ENDALAUS STRÍÐIN!" skrifaði forsetinn.

Tyrkir hafa tekið kröfum Bandaríkjamanna um friðhelgi Varnarsveita Kúrda í Norðaustur-Sýrlandi vægast sagt fálega og hafa ítrekað lýst því yfir að þeir hyggist ráðast gegn þeim bráðlega, hvort sem bandarískir bandamenn þeirra á svæðinu verði farnir eða ekki.