Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mun fleiri skráð heimilisofbeldismál

09.06.2017 - 16:14
lögreglumaður á bílastæðinu við lögreglustöðina við Hverfisgötu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Ofbeldisbrotum og brotum gegn friðhelgi einkalífs fjölgar milli ára. Afbrotafræðingur telur að breytt verklag í kringum heimilisofbeldi kunni að vera skýringin á fjölgun ofbeldismála, en regluverki var breytt árið 2015. „Á þessari fjölgun er frekar einföld skýring. Þegar verklagi á heimilisofbeldi var breytt 2015 varð skráning á þessum málum mun vandaðari,“ segir Rannveig Þórisdóttir, afbrotafræðingur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

„Samstarf við sveitarfélögin var bætt til muna og fleiri mál fóru að skila sér til okkar,“ segir hún.

Fyrir tveimur árum voru skráð heimilisofbeldismál um 20 á mánuði að staðaldri. Nú eru þau um 55 á mánuði. Ekki er auknu ofbeldi um að kenna heldur bættri skráningu, segir Rannveig. „Breytingarnar hafa skilað sér í miklu betri þjónustu til þolenda og við erum betur upplýst fyrir vikið.“

Brot gegn friðhelgi einkalífs algengari 

Skráð voru rúmlega 1.600 ofbeldisbrot í fyrra, ef marka má bráðabirgðatölur fyrir árið 2016 í ársskýrslu Ríkislögreglustjóra, sem kom út á dögunum. Meðalfjöldi slíkra brota var hinsvegar tæplega 1.200 á árunum 2012 til 2014.

Þá voru skráð brot gegn friðhelgi einkalífs rúmlega 900 talsins, en meðalfjöldinn frá 2012 til 2014 tæplega 600.

Auðgunarbrotum fækkar hinsvegar úr tæplega 6.000 í 5.500 á ári, en þjófnaður og innbrot teljast til auðgunarbrota. Ein skýring á því kann að vera að brotin eru að færast annað, segir Rannveig. Afbrot fari frekar fram á netinu og séu síður tilkynnt til lögreglu.  

„Skipulagðar aðgerðir lögreglu kunna einnig að hafa skilað árangri,“ segir Rannveig og nefnir aukna notkun á síbrotagæslu sem dæmi.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV