Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mun betri staða hjá öðrum eggjabúum

29.11.2016 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljos
Þótt dæmi séu um alvarleg frávík hjá öðrum eggjabúum en Brúneggjum draga eftilitsskýrslur Matvælastofnunar fram allt aðra mynd af starfsemi flestra búa. Hér má lesa útdrætti úr þeim skoðunarskýrslum sem Kastljós hefur undir höndum. Þar kemur hinn 15 ára gamli köttur Eggja-kisi við sögu.

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, ræddi um eftilit með eggjabúum í Kastljósi í gær.

Eftir að nýju lögin tóku gildi, reglugerðin tekur gildi ári seinna, þá höfum við heimsótt tvo þriðju af öllum alifuglabúum á Íslandi, við höfum heimsótt 41 bú og þar af eru 11 eggjabú sem við höfum heimsótt af 13. Það verður að segjast eins og er að það er ekkert bú í líkingu við Brúnegg. Víða er pottur brotinn, en ekki í þessum mæli.

Margir spyrja sig í kjölfarið: hvernig er þá staðan á öðrum búum? Þrettán eggjabú eru á landinu samkvæmt vef Matvælastofnunar:

 1. Nesbú, Vatnsleysuströnd.
 2. Nesbú, Miklholtshelli.
 3. Hvammur, Elliðahvammi.
 4. Stjörnuegg, Vallá.
 5. Brúnegg, Teigi.
 6. Brúnegg, Stafholtsveggjum.
 7. Hamraegg, Hömrum, 350 Grundarfirði.
 8. Efri-Mýrarbúið ehf., 541 Blönduósi.
 9. Grænegg, Sveinbjarnargerði.
 10. Klaufi ehf., Klaufabrekku, 641 Dalvík.
 11. Grýlusteinn ehf, Hánefsstöðum, 710 Seyðisfirði.
 12. Grænahraun ehf, 781 Hornafirði.
 13. Flúðaegg, Högnastöðum 2, 845 Flúðum.

Stjörnuegg, Nesbú og Brúnegg eru langstærstu framleiðendurnir eftir því sem næst verður komist. Kastljós óskaði eftir skoðunarskýrslum síðustu fimm ára frá öllum búum. Misjafnt er hversu mikið eftirlit er með þeim, væntanlega eftir stærð og frammistöðu.

Bæði Stjörnuegg og Nesbú eru með hvort tveggja lausagönguhænur og búrhænur. 1. janúar 2022 verður búrahald bannað, svo framleiðendur eru smám saman að færa sig yfir í lausagöngu, breyta húsum og byggja ný.

Ef draga á upp mynd af stöðunni - og helstu frávikum hjá Stjörnueggjum frá 2011 þá væri það eitthvað á þessa leið.

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - kastljós
Mynd tekin 29. nóvember hjá Stjörnueggjum

Fjöldi hæna er innan marka í öllum húsum, þótt stundum finnist nokkur búr með fimm hænum þar sem hámarkið er fjórar og það þarf betri lýsingu fyrir hænurnar í neðstu röðunum. Það vantar rakamæla, betri skráningar og tíðari salmonellusýnatöku. Ríkar athugasemdir eru gerðar við eggjapökkunarstöðina 2011 og tólf en ekki síðan. Stjörnuegg merkja sín egg frá lausagönguhænum sem vistvæna landbúnaðarafurð.

Hjá Nesbúeggjum má segja að myndin sé svipuð. Það eru alltaf gerðar einhverjar athugasemdir - það finnast búr með of mörgum hænum í, það þarf að bæta salmonellusýnatöku og aðstæður í eggjapökkunarstöð, rakamælingar og lýsingu.

Nesbú hefur selt svokölluð Hamingjuegg lengi, sem koma frá lausagönguhænunum, en þau hafa ekki verið merkt sem vistvæn. Enda segir á vef Nesbúeggja:  Vottunin hefur verið villandi fyrir neytendur og rugla neytendur oft saman vistvænu og lífrænu en mikill munur er þar á.

Nesbúegg reka nefnilega einnig eina lífræna eggjabúið, að Miklholtshelli í Ölfusi. Matvælastofnun sinnir sínu reglubundna eftirliti þar, en Vottunarstofan Tún fylgist með því að reglum um lifræna ræktun sé fylgt. Þar mega ekki vera fleiri en 6 hænur á fermetra í lausagönguhúsunum og svo verða hænurnar að hafa aðgang að útisvæði upp á minnst fjóra fermetra á hverja hænu. Kastljós fékk afhenta síðustu skoðunarskýrslu Túns frá Miklholtshelli og kemur þar í ljós að engar athugasemdir eru gerðar við starfsemina. Sjá má skýrsluna hér til hliðar.

Af þessum gögnum má ráða að aðbúnaður varphænanna hefur heldur batnað undanfarin ár hjá þessum tveimur stærstu framleiðendum, hærra hlutfall er í lausagöngu og þótt Matvælastofnun geri vissulega athugasemdir, þá blikna þær í samanburði við það sem má lesa í skoðunarskýrslum frá eggjabúum Brúneggja að Stafholtsveggjum og Teigi.

Mynd með færslu
 Mynd: Matvælastofnun
Mynd frá búi Brúneggja tekin af eftirlitsmanni

 

Útdráttur úr skoðunarskýrslum

Stjörnuegg:

Skoðun í desember 2011: Fjöldi hæna innan marka í öllum húsum, en þó fundust nokkur búr með 5 hænum, engar sérstakar smitvarnir milli varphænuhúsa. Engir rakamælar. Innra eftirliti ábótavant. Ekki tekin salmonellusýni. Ýmislegt sem þarf að bæta í eggjapökkunarstöðinni og sagt að gagngerar breytingar verði „að eiga sér stað á því hvernig framleiðsla fljótandi eggja fer fram hjá fyrirtækinu.” (Lausagönguhænur eru 6 á fermetra).

Skoðun í desember 2012:  Búið að bæta úr salmonellusýnatöku. Óviðunandi skráningar og smitvarnir. Fordyri ekki fullnægjandi, ekki fylgst með rakastigi, leki úr lofti, skortur á skráningum. Stjörnuegg eru ekki búin að sækja um leyfi fyrir eggjapökkunarstöð eins og ber að gera. 21 athugasemd er gerð við eggjapökkunarstöðina. (Lausagönguhænur eru 6 á fermetra).

Skoðun í október 2013:  Gera þarf við lítið gat í lofti í einu húsi þar sem. Greina betur milli hreins og óhreins svæðis í fordyrum. Fjarlægja þarf dauða fugla jafnóðum og bæta skráningar á eigin eftirliti. Hvorki er minnst á eggjapökkunarstöðuna, né fjölda fugla.

Skoðun í desember 2014:  Enn vantar betri skráningar og salmonellusýni. Eitthvað um mikið plokkaðar hænur. Búr í neðstu röðum í myrkri. Rakastig of lágt. Dauðir fuglar ekki fjarlægðir jafnóðum.

Skoðun í október 2016: Ekki haldnar skýrslur um varp. Ekki til staðar rotari til að rota/deyfa fyrir aflífun. Lýsingu ábótavant í neðstu röðunum hjá burhænunum. Í þrem húsum voru sums staðar 5 hænur í búri. Á einum stað 6 hænur í fjögurra hænu búri. Músaskítur á færiböndum í einu húsinu.

Ekkert alvarlegt frávik er skráð hjá Stjörnueggjum síðustu fimm ár skv. skoðunarskýrslunum.

Nesbú

Skoðun í október 2010: Of margar hænur hafa verið settar inn í búrin. (Í lausagönguhúsunum eru þær 8 á fermetra). Ekki nógu gott innra eftirlit. Þarf að taka fleiri salmonellusýni. Fyrirtækið sem sér um meindýravarnir skilar óviðunandi skráningum.

Skoðun í desember 2011: Aftur eru of margar hænur settar í búrin í upphafi. (Í lausagöngu eru þær 8,4 á fermetra). Leki í vatnskerfum í einu húsi. Blaut svæði á gólfum í öðru lausagönguhúsinu. Ekki tekin nógu mörg salmonellusýni. Vantar innra eftirlit og þarf að bæta teikningar sem fylgja meindýraeftirliti. 18 athugasemdir eru gerðar við eggjapökkunarstöð Nesbúeggja ehf.

Skoðun í desember 2012: Fjöldi varphænsna innan marka, bæði í búrum og á gólfi. Þar eru þær um 8 á fermetra. Tekið er fram að mjög snyrtilegt hafi verið á búinu á skoðunardegi. Fáar athugasemdir: þétta þarf útihurð, setja gólfefni á gólf fordyris og eggjasöfnunarrýmis, koma upp rakamælum og taka vatnssýni.

Skoðun í mars 2014: Einu frávikin eru að skráningu á rakastigi vantar og það eru göt á veggjum í húsunum sunnan Vatnsleysustrandavegar.

Skoðun í nóvember 2014: Enn vantar skráningu á rakastigi og það þarf að taka fleiri salmonellusýni. Götin eru enn á veggjunum og lýsingu er ábótavant hjá hænunum sem eru í neðstu búraröðunum. Innra eftirlit og skráningar þarf að bæta.

Skoðun í febrúar 2016: Límmottur eru notaðar fyrir mýs, en notkun þeirra er búið að banna. 20 vikur liðu milli salmonellusýnataka í stað 15. Meira rými þarf við fóðurtrog og í hóphreiðrum í einu húsi, og ekki eru haldnar skýrslur um varp hænsnahópanna. Enn þarf að bæta lýsinguna fyrir hænurnar í neðstu búraröðunum.

Engin alvarleg frávik eru skráð hjá Nesbúeggjum síðustu sex ár.

Grænegg ehf

Fyrirtækið framleiðir eggin sem merkt eru sem Bónus vistvæn egg. Búið er í Sveinbjarnargerði í Eyjafirði og þar hefur verið svokölluð vistvæn eggjaframleiðsla frá því fyrir aldamót. Grænegg tóku við búinu árið 2012. Tvær eftirlitsskýrslur er að finna þaðan:

Skoðun í desember 2012: Ekki eru skráð formleg frávik, en nokkrar athugasemdir. Fyrst er það salmonellusýnatakan, sem virðist vera landlægt vandamál. Hana þarf að bæta. Fordyri að húsunum er ekki tvískipt og ekki skipt í hrein og óhrein svæði. Vararafstöð vantar. Engar skráningar um afföll og fleira. Þarf betra innra eftirlit. „Köttur átti sér ból í eggjapökkunarstöðinni. Ekki heimilt.”

Grænegg sendu áætlun um úrbætur um hæl, þar sem fram kemur meðal annars að kötturinn eigi sér ekki lengur ból í pökkunarhúsi.

Skoðun í nóvember 2015: Enn er gerð athugasemd við að salmonellusýni séu ekki send inn á 15 vikna fresti. Eins að skrá þurfi daglega eggjafjölda hvers húss fyrir sig. Einnig er gerð athugasemd við það hvernig hænurnar eru aflífaðar, því þær eru haushoggnar. Rota þarf eða deyfa fyrst. Síðan er gerð athugasemd við það að drykkjarbollar, eða nipplar, séu of fáir. Það vanti  29 stykki uppá. Einnig er talið að of margir fuglar séu í öðru húsinu miðað við 9 fugla á fermetra, sem er hámarkið samkvæmt reglugerð um velferð alifugla.

Forsvarsmenn Græneggja bregðast þegar við fyrstu þremur athugasemdunum en mótmæla hinum tveimur og segja mælingar MAST rangar. Við endurmælingu í sumar kom í ljós að það var rétt hjá þeim, gólfflöturinn var stærri en mælingar Matvælastofnunar gáfu til kynna, en eftir er að komast til botns í drykkjarbollamálinu.

Svo segir: „Svo er undirrituðum bent á það að kötturinn á búinu verði að fara. Kötturinn sem hefur ávalt verið á búinu og ekki gerðar athugasemdir fyrr en nú. Þess ber að geta að undirritaðir telja köttinn eina bestu meindýravörn sem við höfum, fyrir bæði fugla og mýs. Til að koma til móts við breytt regluverk verður með úrbótum skilið betur á milli hreins og óhreins svæðis og á endanum hefur kötturinn þá ekki lengur aðgang inn á hreina svæðið. Óskum við því hér með eftir því að fá aðlögun frá þessu á meðan að umræddur köttur lifir, sem nú er orðinn gamall.”

Kötturinn ku heita Eggja-Kisi og vera orðinn 15 ára.

Í svari héraðsdýralæknis segir: „Við eftirlit kom í ljós að kötturinn liggur m.a. upp við pakkningar, sem er óviðunandi. Fallist er engu að síður á þær tillögur um úrbætur sem lagðar eru til og ef þær ganga eftir verður ekki gerð athugasemd við þetta atriði svo lengi sem kötturinn lifir og nýr köttur leysi hann þá ekki af í þessu starfi.”

Hvammur

Þá er það bú formanns Félags eggjaframleiðenda, Þorsteins Sigmundssonar í Elliðahvammi. Þar eru varphænur eingöngu í búrum, ekki í lausagöngu.

Skoðun í september 2010: Kunnuglegt stef - það eru ekki tekin salmonellusýni, það vantar vask og skiptingu í hreint og óhreint svæði í fordyri. Köttur er ekki sagður nægja sem meindýravörn, það vantar rakamæla og sums staðar voru 5 hænur í 4 hænu búrum. Innra eftirlit vantar.

Skoðun í september 2011: Sömu athugasemdir og 2010.

Skoðun í febrúar 2012:  Tvískipta skal fordyri til smitvarna og betri skráningar þarf.

Skoðun í febrúar 2014: Það vantar vask, rakamæli og salmonellusýni.

Skoðun í nóvember 2014: Eina frávikið er að það þarf að taka salmonellusýni.

Skoðun í október 2016: Of langur tími leið milli salmonellusýnataka. Einstaka fuglar eru ekki rotaðir fyrir aflífun. Lýsingu í neðstu búraröðum er ábótavant.

Flúðaegg

Utan við Flúðir er Högnastaðabúið sem framleiðir egg undir vörumerkinu Flúðaegg. Þar eru bara hænur í búrum, ekki í lausagöngu.

Skoðun í desember 2012: „Húsin voru fín og þrifaleg. Fuglarnir voru hreinir og fínir. Svo virtist sem allir hefðu aðgang að fóðri og vatni. Loftgæði voru mjög fín í öllum húsunum.” Eitthvað var þó um fimm fugla í búri, en þeir mega að hámarki vera fjórir.

Samið var við MAST um að sjá um salmonellusýnatöku í framtíðinni. Ekki var fleiri skýrslur um Högnastaðabúið að finna.

Eftirlit MAST er áhættumiðað, svo þau bú sem fá litlar sem engar athugasemdir eru heimsótt sjaldnar.

Klaufi ehf, Klaufabrekku, 621 Dalvík

Skoðun í mars 2015: Engin alvarleg frávik en tvö frávik auk athugasemda. Stærð búra er undir lágmarki auk þess sem dauð hæna fannst í búri og hafði verið dauð í einhvern tíma. Tryggja þarf að öll búr séu skoðuð vel daglega. Ekki framkvæmd mæling af ammoníaki og koltvísýringi en eftirlitsaðilum fannst þungt að draga andann og sveið í augu. Stöðugur hávaði frá loftræstikerfi. Fjaðrir, kambur og húð mæld á 10 hænum. Fjórar voru með athugasemd af stærri gráðu, skaðar aðallega ofan á hálsi og baki sem gæti stafað af nuddi frá búrum. Skráning eggjamagns þarf að fara fram.

Skoðun í desember 2015: Aftur er gerð athugasemd við frávik hvað varðar stærð búra en að öðru leyti eru engin frávik. Sérstaklega er tekið fram að frávik vegna búrastærðar er ekki tilkomið vegna nýrrar reglugerðar heldur hafi það einnig átt við þegar eldri reglugerð var í gildi.

Hamraegg, Hömrum, Grundarfirði

Skoðun í október 2014: Sérstaklega er tekið fram í skoðunarskýrslu að hænsnahúsið sé vel þrifið og reglulega ryksugað. Umgengni snyrtileg og viðhald gott auk þess sem hænurnar voru hreinar og heilbrigðar að sjá á skoðunardegi. Tekið er fram að bæði fóðurgeymsla og byggingin sjálf virðist vera meindýraheld.  Ekkert skordýraeitur er notað og þá eru engin lyf gefin eða sett í fóður.

Nokkur frávik skráð. Viðvörunarkerfi vantar fyrir rafmagnsbilanir og ef hitastig verður of hátt eða lágt. Fordyri er ekki skipt í hreint og óhreint svæði, handlaug er ekki til staðar og ekki eru til sérstök föt sem eingöngu eru notuð í fuglahúsinu. Skráningu á dauðsföllum vantar og þá er merkingu umbúða ábótavant því þar skortir upplýsingar um síðasta söludag, nettóþyngd eggja og stykkjatal.

Efri-Mýrar, Blönduósi

Alvarlegt frávik er skráð hjá Efri-Mýrum sem tengist sýnatöku vegna eftirlits með salmonellusýkingu.

Skoðun í september 2015: Alvarlegt frávik, engin sýni hafa verið tekin undanfarin ár til að fylgjast með salmonellu. Í bréfi sem sent var í maí 2014 segir Matvælastofnun að ef ekkert eftirlit sé með salmonellu teljist varan óörugg matvæli. Ef ekki verði bætt úr þess hyggist stofnunin stöðva dreifingu eggja frá búinu. Í september 2015 hefur ekki verið bætt úr þessu.

Þar að auki eru nokkur frávik skráð. Óhreinindi og leifar af eggjarauðu víða á færiböndum fyrir egg auk þess sem slím eða slikja er í vatnsskálum. Búr eru of lítil og oft of margar hænur í búri. Mega vera 3 miðað við stærð en eru yfirleitt 4 og í mörgum búrum 5. Klær á eldri hænum eru óeðlilega langar.

Skoðun í júní 2016:  Frávik skráð varðandi stærð búra en frestur til úrbóta er til 2022. Aftur finnast 5 hænur í búrum. Klær á elstu hænunum eru allt of langar.