Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mugabe þótti efnilegur leiðtogi

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Mugabe þótti efnilegur leiðtogi

02.04.2017 - 13:31

Höfundar

Robert Mugabe, forseti Simbabve í sunnanverðri Afríku, er einn alræmdasti einræðisherra sem nú er uppi. Hann hefur leitt Simbabve frá því að landið varð sjálfstætt í núverandi mynd, árið 1980, í 37 ár. Í upphafi valdaferils Mugabes ríkti almennt bjartsýni með hann og gerðar voru til hans miklar vonir. Þær urðu þó að engu með tímanum og Mugabe steypti landi sínu í glötun spillingar og alræðis.

Í ljósi sögunnar fjallar um langa ævi Roberts Mugabe, sem fagnaði 93 ára afmæli sínu í 21. febrúar síðastliðinn, og sögu Simbabve sem áður var breska nýlendan Suður-Ródesía. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Efnilegur nemandi

Mugabe ólst upp í fátæku sveitaþorpi, elsti sonur einstæðrar móður. Hann gekk í kaþólskan trúboðsskóla, þar sem hann skaraði framúr og vakti mikla athygli fyrir gáfur og dugnað.

Evrópsku kennararnir í skólanum urðu þess fljótt vissir um að hinn ungi Robert Mugabe væri framtíðarleiðtogi — nokkuð sem sagt er að Mugabe sjálfur hafi á endanum líka orðið fullviss um að lægi fyrir honum.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Mugabe yngri að árum.

Velstæður hvítur minnihluti með öll völd

Þegar Mugabe var að alast upp var landið hans, Suður-Ródesía, bresk nýlenda þar sem hvítir landnemar fóru með öll völd, áttu allt besta ræktarlandið og fá tækifæri voru fyrir innfædda önnur en að vinna fyrir hvíta manninn.

Lífsgæði hvítra Ródesíumanna voru með þeim allra mestu í Afríku en svartur almenningur var fátækur. Þegar Afríkumenn fóru að krefjast sjálfstæðis undan oki hvítra nýlenduherra í auknum mæli, í lok sjötta áratugarins og í byrjun þess sjöunda, var Suður-Ródesía ekki undanskilin.

Bretar reyndu að telja Ródesíumenn á að láta meiri völd í hendur svarta meirihlutans en við Ródesíumenn var ekki tjónkað. Með forsætisráðherrann Ian Smith í broddi fylkingar lýstu þeir yfir einhliða sjálfstæði frá Bretlandi árið 1964, og voru í kjölfarið útskúfaðir úr samfélagi þjóða.

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Simbabvemenn fagna sjálfstæði 1980. Mugabe er með gleraugu til hægri.

Margra ára skæruhernaður

Eftir trúboðsskólann hafði Robert Mugabe unnið sem kennari og stundað háskólanám í Suður-Afríku og Gana. Þar hafði hann komist í kynni við réttindabaráttu Afríkumanna og marxisma, og þegar hann kom aftur hellti hann sér í baráttuna gegn hvítum yfirráðum.

Sú barátta þróaðist á endanum út í skæruhernað sem lauk ekki fyrr en 1980, þegar loks náðust samningar um að Ródesía yrði að sjálfstæða ríkinu Simbabve og innfæddir svartir Afríkumenn færu með völdin. Í kosningum sem fylgdu vann Mugabe og flokkur hans. 

Blindandi bjartsýni

Sem skæruliðaforingi hafði Mugabe farið mikinn í yfirlýsingum gegn hvítum Ródesíumönnum en þegar hann var kominn til valda sló hann sáttatón og lagði áherslu á að styggja ekki hvíta borgara og hrekja þá ekki á flótta.

Því ríkti talsverð bjartsýni á Vesturlöndum með Mugabe fyrstu árin sem hann var við stjórnvölinn. En í þeirri bjartsýni var litið framhjá því að Mugabe hófst strax handa við að leggja grunninn að algjörri einræðisstjórn sinni, og að útrýma pólitískum andstæðingum sínum af grimmd.

epa05814889 Zimbabwean President Robert Mugabe (3-L) with his wife Grace (3-R) behind a birthday cake marking his 93rd birthday celebration event at Matopo Research Centre in Matobo, Matabelelan South, 24 km from Bulawayo, Zimbabwe 25 February 2017.
 Mynd: epa
Afmælisbarnið í 93 ára afmælisveislunni. Kakan vó 93 kíló.

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18.10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV

Tengdar fréttir

Afríka

Mugabe ætlar að bjóða sig fram 2018

Erlent

Rándýr afmælisveisla Mugabes í skugga hungurs