Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mugabe styður ekki Mnangagwa til forseta

29.07.2018 - 11:58
epa06917253 Former President of Zimbabwe Robert Mugabe delivers a speech from The Blue House in Harare, Zimbabwe, 29 July 2018. Mugabe was forced out of power during a bloodless military coup. Zimbabweans go to the polls on 30 July 2018.  EPA-EFE/YESHIEL
 Mynd: EPA
Robert Mugabe, fyrrverandi forseti Simbabve, segist ekki ætla að styðja Emmerson Mnanagagwa sitjandi forseta þegar kosið verður til bæði þings og forseta í landinu á morgun. Mugabe greindi frá þessu á óvæntum blaðamannafundi sem hann boðaði til á heimili sínu í Harare í dag.

AFP greinir frá. Herinn steypti Mugabe af stóli í nóvember eftir 37 ár á valdastóli og kom Mnangagwa til valda. Hann er fyrrum samherji Mugabes úr stjórnarflokknum Zanu-PF. „Ég var rekinn úr stjórnmálaflokknum sem ég stofnaði, Zanu-PF. Ég var álitinn óvinur en hvers vegna er núna komið fram við mig eins og ég skipti ekki máli, eins og andstæðing?“ sagði Mugabe á blaðamannafundinum sem haldinn var á grasflötinni við glæsivillu hans í úthverfi Harare. 

Helsti keppinautur Mnanagagwa í kosningunum á morgun er Nelson Chamisa úr Lýðræðisfylkingunni. Á blaðamannafundinum sagðist Mugabe ekki geta gefið þeim sem kvöldu hann atkvæði sitt. „Ég get ekki kosið Zanu-PF, þannig að hvað er eftir? Ég held að það sé bara Chamisa,“ sagði Mugabe. 

Mugabe hefur aðeins veitt eitt viðtal frá því honum var komið frá og það var í mars. Þar sagði hann að hann hefði aldrei getað trúað því að Mnanagagwa yrði sá sem myndi snúast gegn honum.  
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV