Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mozzarellasalat

17.12.2015 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm
Mozzarellasalat í ítölsku fánalitunum er eitt það besta sem ég veit þegar sól hækkar á lofti. Mér finnst mozzarellaosturinn fara vel í mig og ég nota þetta salat oft til að drýgja matinn en einnig fæ ég mér það stundum bara svona hinsegin af því það tekur enga stund að útbúa og mér finnst það svo gott. Hér er ólífuolían ómissandi, ekki spara hana...það er mjög nauðsynlegt að gæta þess að borða góða fitu í hverri máltíð.

Mozzarellasalat

3 tómatar, íslenskir (eldrauðir)
2 stk. ferskar mozzarellakúlur
1-2 handfyllir fersk basilíka
Kaldpressuð ólífuolía eftir smekk
Sjávarsalt og svartur pipar eftir smekk

Skerið mozzarellaostinn í þunnar sneiðar (hellið fyrsta vatninu af þeim).
Skolið tómatana og skerið svo í sneiðar. Raðið þessu tvennu á víxl á disk, dreifið basilíkulaufum yfir, ólífuolíu og að lokum sjávarsalti.

*Einnig er fallegt að raða upp á pinna einum kokteiltómat, einni lítilli mozzarellakúlu, einu basilíkublaði, salta ögn og bera t.d. fram í veislu.

*Ég borða oft ferskan mozzarellaost. Þá opna ég pokann og helli vatninu úr, sker af það sem ég ætla að nota en set afganginn í sultukrukku með loki, helli ólífuolíu yfir og ögn af sjávar- eða Himalayasalti og geymi inni í ísskáp. Ólífuolían lokar fyrir súrefni og lætur ostinn þannig endast lengur, fyrir utan hvað osturinn verður ljúffengur af því að liggja í ólífuolíu og sjávarsalti.

*Kaldpressuð ólífuolía lokar fyrir súrefni & þess vegna finnst mér gott að setja afgang af mozzarellakúlu/kúlum í hreina glerkrukku, úða ólífuolíu yfir og smá sjávar- eða himalayasalti, lokið á krukkuna og geyma inni í ísskáp. Þá geymist hún lengur. Ég geri þetta líka með afganga af tómatpúrru í krukku og pestó sem dæmi .. úða smá ólífuolíu yfir og geymi inni ísskáp. Þá lokar olían fyrir súrefni - en gerlar í súrefninu eyðileggja matvæli smátt og smátt. Einnig er snjallt að vera sem minnst að káfa á kúlunni (sem og osti og öðru sem þarf að geymast í smá tíma) því það hjálpar til við að láta matvælin endast lengur. 

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir