Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mótvægisaðgerðir við matarskatt í athugun

14.11.2014 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að í dag og næstu daga verði farið yfir og metið hvort mótvægisaðgerðir með fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á matvæli dugi. Bjarni segist enn þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að minnka bilið milli efra og neðra þreps virðisaukaskattsins.

„Það er til mikils að vinna að draga úr því til að gera kerfið skilvirkara og við munum með því ryðja brautina fyrir frekari beinar skattalækkanir í framtíðinni. Efra þrepið er að lækka, við skulum ekki gleyma því, og vörugjöldin þurfa að koma niður.“ segir fjármálaráðherra.

„En það sem við erum að vinna að þessa dagana er að meta hversu langt mótvægisaðgerðirnar drífa í tilefni af þeim athugasemdum sem hafa komið fram. Og í dag og næstu daga ætla ég að vinna að því að skoða þær tillögur sem hafa komið fram.“

Bjarni segir að það sé mikilvægt að breyta virðisaukaskattskerfinu. Taka verði alvarlega athugasemdir um möguleg neikvæð áhrif fyrir einstaka hópa. Það hafi alltaf verið ætlun stjórnvalda og sýnt hafi verið fram á það með dæmum að heildaráhrif breytinganna séu jákvæð.

Skoða ábendingar frá stéttarfélögum
Fréttastofa spurði Bjarna hvort þetta þýddi að gagnrýni á matarkostnað í athugasemdum með fjárlagafrumvarpi væri réttmæt. „Nei, það er einfaldlega fengið með neyslukönnunum það sem hefur verið reiknað. En við höfum hins vegar fengið ábendingar meðal annars frá stéttarfélögunum og öðrum um að það kunni að vera hópar þar sem þessi meðaltöl eigi ekki sérstaklega vel við og það er sjálfsagt að skoða það og ég hef frá upphafi sagt að við værum tilbúin til þess að ræða frekari aðgerðir til þess að tryggja það meginmarkmið með aðgerðunum að halda verðlagi lágu og auka kaupmátt,“ segir Bjarni.