Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mótmælt á Haítí vegna hækkunar eldsneytis

07.07.2018 - 05:30
epa06201145 A woman runs past a barricade during a demonstration in Port-au-Prince, Haiti, 12 September 2017. Haitian Police dispersed hundreds of demonstrators who protested against the approval of the National Budget by the Parliament, considering that
Róstusamt hefur verið á Haítí undanfarin misseri. Fátæktin er mikil, innviðir allir í ólestri og vanræksla og lögleysa hefur skapað jarðveg fyrir glæpagengi hvers konar. Mynd: EPA
Að minnsta kosti einn er látinn eftir mótmæli í Port-au-Prince, höfuðborg Haítí, vegna hækkuana á eldsneytisverði sem gerðar voru að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Verð á bensíni hækkaði um 38 prósent, dísilolíu um 47 prósent og steinolíu um 51 prósent. Þetta hefur lagst afar illa í íbúa fátækasta ríkis Vesturheims.

Sá sem lést var lífvörður stjórnmálamanns og dó þegar hann reyndi að koma skjólstæðing sínum gegnum hóp mótmælenda sem brenndu síðan lík hans.

Komið var upp vegatálmum víða um borgina og hjólbarðar brenndir. Reykjarmökk lagði yfir Port-au-Prince og skothvellir heyrðust. Margir höfðust við á vinnustöðum í stað þess að hætta á það að ferðast heim.

Margir ökumenn freistuðu þess að fylla á bifreiðar sínar áður en hækkanirnar tóku gildi en vegatálmar gerðu umferðarteppu, sem vanalega eru miklar í borginni, enn verri.

Niðurgreiðsla á eldsneyti er helsta ástæða mikils fjárlagahalla í landinu. Ríkisstjórnin segir að niðurgreiðslan gagnist helst íbúum Dóminíska lýðveldisins, nágrannaríkis Haítí, þar sem eldsneytisverð er hærra.

Ráðamenn gerðu sér fulla grein fyrir því óvinsældum hækkananna og gripu til þess ráðs að tilkynna um þær á meðan leik Brasilíu og Belgíu í átta liða úrslitum heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu stóð en stærstur hluti Haítíbúa styður Brasilíu.

Brasilía tapaði leiknum og óeirðirnar hófust í kjölfarið.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV