Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mótmæli við frumvarpi um fóstureyðingar

09.03.2014 - 14:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Minnst fimmtán þúsund konur komu saman í Osló í gær, á kvennafrídeginum, til að mótmæla nýju lagafrumvarpi ríkistjórnarinnar um fóstureyðingar. Sömu sögu er að segja frá helstu bæjum landsins. Lögin þykja afturför frá því sem verið hefur en eru hjartans mál eins af stuðningsflokkum stjórnarinnar.

Mesti fjöldi í áratugi

Svo margir hafa ekki komið saman á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í miðborg Óslóar í fjörutíu ár. Árið 1974 var krafan um frjálsar fóstureyðingar mikið hitamál og klauf þjóðina í ólíkar fylkingar. Núna er fullyrt að nýtt frumvarp ríkisstjórnar Ernu Solberg takmarki réttinn að nýju.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir heimilislæknar sem þess óska þurfi ekki að gefa konum tilvísum á fóstureyðingu. Óvenju mikil þátttaka var í mótmælunum um allt land og þess krafist að ríkisstjórnin hætti við lagabreytinguna.

Forsætisráðherra hissa

Erna Solberg forsætisráðherra segir við dagblaðið Aftenposten í dag að hún skilji ekki þennan ákafa því nýju lögin feli ekki í raun í sér breytingu, aðeins viðurkenningu á því sem er í raun og veru. Margir læknar vilji ekki vísa á fóstureyðingar og geri það ekki.

Málið er þó vandasamt vegna þess að aðeins einn stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar hefur barist fyrir þessari breytingu. Það er Kristilegi þjóðarflokkurinn en lagabreyting að ósk flokksins er bundin í samninginn um stuðning við ríkisstjórnina. Þingmenn þriggja af fjórum flokkum, sem standa að stjórninni, hafa hins vegar ekki barist fyrir þessum máli og alls ekki stjórnarandstaðan.

Mikilvægur stuðningur

Kristilegir hafa aðeins 10 þingmenn en líf stjórnarinnar veltur samt á stuðningi þeirra. Þetta er því erfiðasta málið sem Erna Sólberg hefur mætt á fimm mánaða stjórnarferli sínum því hún er skuldbundin til að fylgja eftir frumvarpi sem enginn meirihluti er fyrir og sætir mótmælum meðal almennings.