Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mótmæli og skuldaniðurfærsla á sama tíma

09.11.2014 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli á morgun sama dag og kynna á skuldaniðurfærslu stjórnvalda. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, segir að það sé álitamál hvort rétt sé að hóa fólki með ólíkar áherslur öllu saman á einn stað.

Á fimmta þúsund manns mættu í mótmælin á mánudaginn var og hafa önnur mótmæli verið boðuð á morgun. Þann sama dag verður einnig kynnt niðurstaða niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur ekki áhyggjur af því að mótmæli hafi truflandi áhrif á þá kynningu. Sigmundur segir að á þeim mótmælum sem fóru fram á mánudaginn var hafi verið fjölmargir hópar með ólíkar áherslur innbyrðis.

„Og það er álitamál hvort það sé góð leið til að koma tilteknumn áherslum á framfæri að blanda þeim öllum saman. Þannig að kannski að menn fari að velja sér aðrar dagsetningar til að geta betur lagt áherslu á tiltekin atriði. En þetta ætti ekki að trufla þetta sérstaklega.“

Um hádegi í dag höfðu yfir 3.400 boðað komu sína á mótmælin á morgun á Facebook.