Mótmæli í Frakklandi vegna flóttamanna

08.10.2016 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Frakkar mótmæltu í nokkrum bæjum landsins í dag fyrirætlunum stjórnvalda að færa innflytjendur frá flóttamannabúðum í Calais til bæjanna.

Í bænum Forges-les-Baines, um 30 kílómetra suðvestur af París, mótmæltu um 250 manns opnun flóttamannamiðstöðvar síðasta mánudag. Þar eru nú 44 Afganir. Í bænum búa þrjú þúsund og sjö hundruð manns, og ætlun stjórnvalda er að bærinn taki við níutíu og einum flóttamanni í miðstöðina.

Í Pierre-du-Var í Suður-Frakklandi, hefur ónotaður hluti geðsjúkrahúss verið valinn til að hýsa sextíu flóttamenn sem nú eru í Calais. Þeir verða fluttir til í nóvember. Um sex hundruð manns mótmæltu á götum bæjarins í dag, eða um 10 prósent íbúa þessa 6000 manna bæjar.

Það eru hins vegar ekki allir andsnúnir áætlunum stjórnvalds.  Um 250 manns komu saman í Pierre-du-Var, með borða sem á stóð: „Já við samstöðu og veri innflytjendur og flóttamenn velkomnir“.

Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði í heimsókn sinni til Calais í síðasta mánuði, að búðirnar þar yrðu teknar niður og íbúar þeirra fluttir til annarra bæja í Frakklandi áður en árið yrði á enda.

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi