Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mótmælendur í Búkarest upplifa valdníðslu

13.02.2017 - 16:35
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
„Fólk upplifði þetta sem mikla valdníðslu.“ Þetta segir Jóhanna Gísladóttir, doktorsnemi við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún fór á dögunum til Búkarest, höfuðborgar Rúmeníu, og ræddi við mótmælendur þar í tengslum við doktorsverkefni sitt. Þrettán kvöld í röð hefur fólk safnast saman til þess að mótmæla bráðabirgðalögum sem mánaðargömul ríkisstjórn jafnaðarmanna setti í skjóli nætur. Með þeim átti að afglæpavæða mútuþægni og misgjörðir stjórnmálamanna. Þau komu leiðtoga flokksins vel.

Þegar mest lét söfnuðust yfir 500 þúsund mótmælendur saman víðs vegar um landið og það í frosti og kulda.

epa05789015 Romanian protesters turn on the lights of their cell-phones while standing under colored papers during a protest in front of government headquarters in Bucharest, Romania, late 12 February 2017. Following recent mass protests, Romania's
 Mynd: EPA

Frumvarpinu var lekið til fjölmiðla nokkru áður en það var samþykkt. 

„Fólk fær veður af því að þessi lög séu í pípunum og var strax mjög ósátt og þess vegna vakandi yfir því hvað væri að gerast hjá ríkisstjórninni. Á þriðjudagskvöldi, eiginlega í skjóli nætur, er kallaður saman ríkisstjórnarfundur og lögin keyrð í gegn. Innan við hálftíma síðar er fólk mætt út á götur. Samfélagsmiðlar spila rosalega stóra rullu þar.“

Sorin Grindeanu, forsætisráðherra hélt því fram að lagabreytingin hefði verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir að fangelsi yrðu yfirfull. Jóhanna segir engan þeirra sem hún ræddi við kaupa þá skýringu. Stærstu mótmælin fóru fram fyrir framan stjórnarráðið að kvöldi sunnudags um þarsíðustu helgi. Jóhanna segir að á mánudags- og þriðjudagskvöld hafi verið minna um að vera. 

„Auðvitað er hávetur, það er kalt, fólk var orðið svolítið þreytt og margir ekki búnir að sjá börnin sín í langan tíma. Fólk ákvað því að taka sér frí og svo voru mikil mótmæli um helgina aftur.“

Áfram mótmælt þrátt fyrir afsögn

Í síðustu viku ákváðu stjórnvöld að fella neyðarlögin úr gildi. Þá sagði dómsmálaráðherra af sér. Þrátt fyrir þetta söfnuðust 70 þúsund manns saman til að mótmæla í gærkvöldi. Jóhanna segir að í raun hafi lítið breyst, lögin eigi nú að fara í gegnum þingið og þar séu jafnaðarmenn í miklum meirihluta. 

„Fólki fannst eins og þetta væri bara hvort sem er að fara að verða samþykkt. Það upplifði þetta líka sem rosalega mikla valdníðslu. Það átti bara að keyra þessi lög í gegn án nokkurs samráðs við einn né neinn.“

epaselect epa05789002 A general view of the Victoriei Plaza full of protesters flashing the lights on their cell-phones under colored pieces of paper, all at the same time to form a huge national flag, during a protest in front of the government
 Mynd: EPA
Frá mótmælunum í gærkvöldi.

Jóhanna segir erfitt að segja til um hversu lengi verði mótmælt í Rúmeníu. Þá segir hún mótmælendur ekki hafa komið sér saman um neina eina kröfu aðra en þá að löggjöfin nái ekki fram að ganga. Sumir vilji kosningar strax, aðrir segi það of snemmt, einungis tveir mánuðir frá síðustu kosningum. Sumir vilja að þeir sem komu að löggjöfinni segi af sér, aðrir segja það ekki ganga upp þar sem þá yrði lítið af reyndum stjórnmálamönnum eftir í flokknum. Sumir vilja einfaldlega sjá breytta forgangsröðun hjá jafnaðarmannaflokknum. 

„Setja pressu á þá, að þeir færu að vinna að því að bæta heilbrigðiskerfið, vegina og menntakerfið og gera eitthvað í þessari fátækt sem er rosalega mikið vandamál í Rúmeníu.“

Einn viðmælenda Jóhönnu kaus flokkinn og sagðist ekki viss um að geta endurheimt traustið til hans. 

„Hann notaði orð eins og brjálæðisleg vonbrigði, að þeir hefðu gert mikil mistök og hann hefði misst allt traust.“

epa05778845 A Romanian during a protest against government in front of government headquarters in Bucharest, Romania, 08 February 2017. Following mass protests, Romania's government on 05 February repelled their controversial ordnance after on 04
 Mynd: EPA
Napurt í Búkarest.

Má ekki verða forsætisráðherra

Reiði fólks beinist að sögn Jóhönnu einna helst að leiðtoga Sósíaldemókrata, Liviu Dragnea. 

„Mörgum finnst hann vera birtingarmynd þessarar pólitísku spillingar sem hefur grasserað þarna svo lengi. Fólk yrði almennt sátt ef hann færi frá.“

Dragnea gat ekki tekið við forsætisráðherraembættinu þar sem hann hefur verið dæmdur fyrir kosningasvik. Hann hefur verið ákærður fyrir að misnota vald sitt og gæti átt yfir höfði sér fangelsisdóm. Margir vilja meina að megintilgangurinn með neyðarlögunum hafi verið að fría Dragnea, hlífa honum við hugsanlegri fangelsisvist og gera honum kleift að verða forsætisráðherra. Breska ríkisútvarpið, BBC, greindi frá því stuttu eftir að lögin voru sett að Dragnea hagnaðist á þeim. Hann er ákærður fyrir að hafa svikið tæplega þrjár milljónir króna af ríkinu en lögin gerðu ráð fyrir því að svíkja mætti út allt að fimm milljónum án eftirmála. 

Spillingin rótgróin - hinir ekkert endilega betri

Sósíaldemókrataflokkurinn hefur að sögn Jóhönnu verst orð á sér þegar kemur að spillingarmálum. Stjórnarandstaðan virðist þó ekki hafa náð að sanna að hún sé eitthvað betri. Barátta gegn spillingu hafi verið leiðarstef í kosningabaráttu margra stjórnarandstöðuflokka en kjósendur virðist ekki treysta þeim. 

Spilling hefur lengi verið meinsemd í rúmensku samfélagi. Síðastliðin ár hafa spillingarmál þó verið tekin fastari tökum en áður og opinberir fulltrúar sem brjóta af sér verið dregnir til ábyrgðar.

Forsetar þingdeilda og fyrrum forsætisráðherra

Frá árinu 2004 hafa 18 rúmenskir ráðherrar verið ákærðir eða dæmdir fyrir spillingarbrot og fjölmargir aðrir stjórnmálamenn, dómarar og áhrifamenn sæta rannsókn vegna hugsanlegrar aðildar að spillingarmálum. 

Forsetar beggja deilda þingsins bíða þess nú að réttað verði yfir þeim og réttarhöld yfir fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Viktor Ponta, standa yfir. Hann er ákærður fyrir skjalafals, peningaþvætti og fyrir að hvetja til skattsvika. 
Embætti sem hefur það hlutverk að uppræta spillingu, DNA, var komið á fót árið 2003. Guardian greinir frá því að spillingarákærur á hendur ráðamönnum hafi flestar byggt, í það minnsta að hluta til, á rannsóknum DNA. Laura Kövesi, aðalsaksóknari hjá stofnuninni, hefur verið í framlínunni í baráttunni gegn spillingu í landinu. Í umfjöllun breska blaðsins Guardian um mótmælin í Rúmeníu kemur fram að mótmælendur leggi mikið upp úr því að verja stofnunina og Kövesi. Þeir séu stoltir af þeim árangri sem hefur náðst og kæri sig ekki um bakslag. 

Kövesi tók við starfi saksóknara árið 1995, en hún segir mikið hafa breyst síðan. Í þá daga voru saksóknarar ekki sjálfstæðir og engin fordæmi voru fyrir því að störf ráðherra og þingmanna væru rannsökuð, segir hún. Það að veikja spillingarlöggjöfina hefði verulega neikvæð áhrif í för með sér, án áhrifamikilla og óháðra dómstóla sé ekki hægt að tala um réttarríki. Hún segir mikilvægast að í Rúmeníu sé enginn hafinn yfir lög og reglur, því megi ekki samþykkja löggjöf sem hygli glæpamönnum. 

Flestir upplifað spillingu á eigin skinni

Jóhanna segir að flestir þeirra sem hún ræddi við hafi upplifað spillingu á eigin skinni, svo sem neyðst til að greiða læknum mútur. 

„Þarna 2003 er stofnað embætti sem á að tækla spillingu og Rúmenía stefnir þá á að komast inn í Evrópusambandið. Einn sagði við mig að það væri eins og þeir hefðu sameinast um þetta markmið, að tækla spillinguna og verða betri. Það gekk mjög vel og 2007 koma þeir inn en Evrópusambandið er enn með sérstakt embætti sem er að monitora þá og halda uppi þrýstingi á þeim að gera úrbætur á dómskerfinu, úrbætur varðandi spillingu og skipulagða glæpastarfsemi.“

Smákóngar úti á landi

Hún segir að vel hafi tekist til í dómskerfinu en staðan sé önnur á vettvangi stjórnmálanna. 

„Þetta virðist bara vera svo mikill kúltúr, aðallega þá á sviði opinberra útboða. Það eru svona þessir smákóngar, fékk maður á tilfinninguna, í bæjarfélögum úti á landi, sem hafa setið í einhverja áratugi og vilja vernda sína stöðu.“

Unga fólkið verulega ósátt

Hún segir unga fólkið mjög óánægt með þennan kúltúr. 

„Það vill hærri standard, það vill úrbætur, það vill ekki að Rúmenía sé eftirbátur annarra Evrópulanda. Það er svona eins og þjóðarsálin, maður fann það þegar maður talaði við fólk, það sagði að ef þetta batnaði ekki þá færi það úr landi með fjölskylduna en ekki þó til Vestur-Evrópu því þar líti allir niður á Rúmena. Þeir virðast vera meðvitaðir um að þeir hafi þetta orð á sér. Það eru margir sem tengja Rúmeníu við spillingu og skipulagða glæpastarfsemi. Fyrir þeirra þjóðarímynd, sérstaklega, þá kemur þetta mjög illa við þá.“

Þeir vilji tilheyra í Evrópusambandinu, þeir séu því líka að mótmæla vegna áhrifa gjörða stjórnmálamanna á ímynd landsins út á við.

epa05778846 A Romanian man wearing a national flag draws a word reading 'Resist' in the fresh snow during a protest against government in front of government headquarters in Bucharest, Romania, 08 February 2017. Following mass protests, Romania&
 Mynd: EPA

Fyrrverandi forsætisráðherra hrakinn úr embætti

Nokkur óstöðugleiki hefur einkennt rúmensk stjórnmál síðastliðin ár. Ponta, sem fór fyrir flokki sósíaldemókrata, þeim sem enn er við völd, hraktist úr embætti eftir fjöldamótmæli í nóvember árið 2015. Hann hafði þá þegar verið ákærður fyrir spillingarbrot. Mótmælin brutust út í kjölfar þess að 64 létust í eldsvoða á næturklúbbi í Búkarest. Gagnrýnendur héldu því fram að ef ekki hefði verið fyrir spillingu stjórnvalda hefði slysið ekki orðið. Brunavörnum og öryggismálum á klúbbnum hefði verið verulega ábótavant og eigendur hefðu komist hjá því að fara eftir lögbundnum stöðlum með aðstoð spilltra embættismanna og stjórnmálamanna. Eftir að Ponta sagði af sér tók við millibilsástand með tækniveldi og í desember í fyrra kaus þjóðin svo Sósíaldemókrataflokkinn aftur til valda. Kosningaþátttakan var undir 40%. 

epa04844947 (FILE) A file picture dated 12 June 2015 shows Romanian Prime Minister Victor Ponta voting at the opening of a no-confidence motion in front of the Parliament in Bucharest, Romania. According to media reports on 13 July 2015, Ponta has been
Victor Ponta, forsætisráðherra Rúmeníu. Mynd: EPA - EPA FILE
Victor Ponta.

Vilji ekki verða popúlisma að bráð

Í grein New York Times um mótmælin í Rúmeníu kemur fram að hún tengist líka ástandinu í nágrannalöndunum; Ungverjalandi, Póllandi, Slóvakíu og Tékklandi. Popúlistahreyfingin, sem nú hafi náð alla leið í Hvíta húsið, hafi átt upptök sín í Austur-Evrópu. Þar hafi leiðtogar á borð við Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, boðað nýja tegund lýðræðis, ófrjálslynt lýðræði. Stjórnarfar þeirra einkennist af mikilli miðstýringu, stjórnvöld kæri sig hvorki um afskipti annarra ríkja né óánægjuraddir heima fyrir. Cristian Pirvulescu, deildarforseti við stjórnmálafræðideild Stjórnmála- og stjórnsýsluháskólans í Búkarest, segir í samtali við New York Times að Rúmenía sé eina landið á svæðinu sem hingað til hafi haldið í sitt frjálslynda lýðræði. Þar hafi popúlistar ekki náð völdum. Pirvulescu segir að það einkenni popúlistaleiðtoga að þegar þeir hafi sigrað kosningar telji þeir sig geta gert hvað sem þeim sýnist til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Í Ungverjalandi og Póllandi staðsetji þessir flokkar sig á hægri væng stjórnmálanna en Popúlistaflokkarnir í Slóvakíu og Tékklandi séu vinstrisinnaðir. 

Samfélagsmiðlar mikilvægir, fjölmiðlar veikir

Mótmælendur hafa beitt samfélagsmiðlum óspart, þeir nota þá til að skipuleggja mótmæli og senda beint út frá mótmælum í gegnum Facebook, til dæmis. Hundar hafa verið áberandi, bæði í raunheimum og netheimum og myndum af hundum með peninga í kjaftinum hefur verið deilt í miklum mæli. Þetta má rekja til þess að sögusagnir fóru á kreik um að fólk fengi borgað fyrir að mótmæla og þeir sem kæmu með hunda fengju borgað aukalega fyrir þá. Mótmælendur ákváðu að nýta þennan orðróm í baráttunni. Jóhanna segir samfélagsmiðla hafa vakið fólk til vitundar og virkjað það til lýðræðisþátttöku. Viðmælendur hennar hafi haldið því fram að fjölmiðlum sé ekki treystandi þar sem eigendur þeirra eigi oft hagsmuna að gæta. Þeir gefi oft ranga mynd af aðstæðum. 

„Samfélagsmiðlar eru í raun að koma sannari mynd til skila. Fólk fer bara beint niður á mótmælin og setur þetta live á Facebook, er bara að taka þetta upp á símana sína. Fjölmiðlar hafa ekki jafnmikið svigrúm til þess að afmynda sannleikann.“

Fólk mæti kannski ekki á kjörstað, þar sem það hafi ekki trú á kerfinu og flokkunum, en það sé tilbúið að veita aðhald þegar svona lagað kemur upp. Grasrótarhreyfingar hafi eflst mikið á síðustu árum og þær skipuleggi sig í gegnum samfélagsmiðla.