Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mótmæla mögulegri lokun skóla í Grafarvogi

19.03.2019 - 10:41
Mynd með færslu
Grafarvogur. Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Rúmlega 800 manns hafa ritað nafn sitt á undirskriftalista gegn tillögum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar um að loka Kelduskóla-Korpu í Grafarvogi. Nemendum þar hefur fækkað mikið undanfarin ár og eru þeir nú 61 og til skoðunar er að færa nemendur í annan skóla. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir að enn hafi ekkert verið ákveðið varðandi breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi, starfshópur fari yfir mismunandi valkosti og leggi fram tillögur í lok apríl.

Í undirskriftasöfnuninni er skorað á skóla- og frístundasvið að endurskoða tillögur sem kynntar hafa verið foreldrum þar sem þær hafi mikil áhrif á börn hverfisins og fasteignaeigendur.

Sviðið hefur fundað með starfsfólki og foreldrum grunnskólabarna í norðanverðum Grafarvogi og segir Skúli að þar hafi fólk skipst á skoðunum. Samkvæmt samþykkt meirihluta ráðsins á starfshópurinn að „leggja fram útfærðar tillögur sem hafi það að markmiði að tryggja farsælt og gott skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi“. Þá er honum einnig falið að huga að mótvægisaðgerðum, svo sem lagningu göngustíga og samgöngum fyrir nemendur sem sækja skóla í öðru hverfi. 

Mikil fækkun nemenda

Nemendur í Kelduskóla-Korpu voru 141 árið 2012 en eru nú 61. Skólinn var byggður fyrir 170 nemendur. Árið 2008 var unglingastig skólans, 8. til 10. bekkur, fært í Kelduskóla-Vík. Skúli segir að stærsta skýringin á fækkun nemenda undanfarin ár sé sú að færri börn búi í hverfinu. Nokkur dæmi séu um að foreldrar hafi fært börn sín í stærri skóla. Í einstaka árgöngum í Kelduskóla-Korpu eru nemendur færri en tíu og í einum eru þeir aðeins sex. „Það segir sig sjálft að þetta er orðið rosalega lítið samfélag. Við teljum að við getum boðið nemendum betri aðstöðu ef þau eru hluti af stærri heild. Megintilgangurinn með mögulegum breytingum er að bæta aðbúnað nemenda, bæði námslega og félagslega.“ segir Skúli. 

Mynd með færslu
Skúli Helgason, borgarfulltrúi og formaður skóla- og frístundaráðs borgarinnar. Mynd: RÚV

Fámennir skólar í Grafarvogi

Grafarvogur sker sig úr öðrum hverfum borgarinnar að því leyti að þar eru fámennir grunnskólar. 160 nemendur eru í Hamraskóla, 165 í Húsaskóla og 216 í Vættaskóla-borgum. Aðeins í þremur skólum í öðrum hverfum eru færri en 200 nemendur. Það er á Kjalarnesi, í Hvassaleitisskóla og Ártúnsskóla. „Það er talað um að heppileg stærð skóla sé 400 til 450 nemendur til að nýta starfsfólk og húsnæði sem best og bjóða nemendum upp á betra nám og meiri fjölbreytni,“ segir Skúli.

Eins og áður sagði hafa yfir 800 skrifað undir og mótmælt breytingunum sem nú eru til skoðunar. „Við ætlum að hlusta á öll sjónarmið og leggja áherslu á það að fólk sjái kostina í því að börnin komist í fjölmennari hópa, til dæmis varðandi námsframboð. Þá er klárt að félagslegi þátturinn vegur þungt.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir