Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mótmæla byggingu íbúða við Sjómannaskólann

Mynd með færslu
Sjómannaskólinn. Mynd úr safni.  Mynd: Rúnar Gunnarsson - Flickr.com
Íbúafélagið Vinir Saltfiskmóans hefur sent borgarfulltrúum og skipulagsyfirvöldum í Reykjavík formlegar athugasemdir vegna áforma um byggingu íbúða við Sjómannaskólann í Reykjavík. Í athugasemdum íbúafélagsins segir meðal annars að svæðið sé gamall hverfisgarður á Rauðarárholti og að þar sé stakkstæði, eða fiskþurrkunarsvæði, frá árinu 1920 sem að öllum líkindum sé það síðasta sinnar tegundar í Reykjavík.

Samtökin telja að ástæða sé til að óttast að óafturkræf mistök verði gerð og menningarminjar glatist ef af framkvæmdunum verði.

Íbúar í næsta nágrenni við Sjómannaskólann stofnuðu félagið þegar þeir heyrðu fyrst af áformum um byggingu íbúða á reitnum. Í athugasemdum þeirra til borgarinnar segir að móinn sé kallaður Saltfiskmóinn þar sem saltfiskur hafi verið breiddur þar til þerris og settur í stakka. Stakkstæðið þeki um þriðjung móans og hafi verið á vegum togarafélagsins Kveldúlfs. Á þeim tíma hafi saltfiskur verið ein mikilvægasta útflutningsafurð Íslendinga. Slíkum stæðum hafi síðan fækkað með árunum og þau ýmis lent undir malbiki eða byggingum. Þar á meðal séu reitir til fiskþurrkunar við Kirkjusand, Mýrargötu og á mótum Stakkahlíðar og Háteigsvegar. Götuheitin Stakkholt og Stakkahlíð dragi nöfn sín af þeirri sögu.

Verði af byggingu íbúðanna óttast íbúarnir að lífsgæði þeirra yrðu skert og dýrmætri útvistarperlu fórnað. Ungir sem aldnir íbúar líti á Saltfiskmóann sem nokkurs konar hverfisgarð og nýti hann til útivistar. 

Greint var frá því í frétt fréttastofu 16. mars síðastliðinn að til stæði að byggja hús með samtals 500 íbúðum fyrir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð á nokkrum stöðum í borginni, þar á meðal við Sjómannaskólann.

Mynd með færslu
 Mynd: Íbúafélagið Vinir Saltfiskm?
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir