Mossack og Fonseca handteknir

Mynd með færslu
Kenia Porcell, ríkissaksóknari Panama Mynd: EPA
Stofnendur og eigendur lögfræðistofunnar Mossack Fonseca í Panama voru í gær handteknir í Panamaborg. Þeir Jürgen Mossack og Ramon Fonseca voru fluttir í fangageymslur í kjölfar húsleitar á aðalskrifstofum lögfræðistofunnar og heimilum þeirra beggja. Handtökurnar tengjast rannsókn ríkissaksóknara Panama á bílaþvottahneykslinu svokallaða, umfangsmiklu peningaþvættis- og mútumáli í Brasilíu, sem verið hefur til rannsóknar frá 2014 og teygir anga sína til margra landa Mið- og Suður-Ameríku.

Inn í það hneyksli fléttast líka Petrobras-hneykslið, sem skekið hefur brasilíska stjórnmálaheiminn árum saman. Porcell lýsti því yfir á fréttamannafundi á fimmtudag að Mossack Fonseca-lögfræðistofan, uppspretta Panamaskjalanna svonefndu, sé að líkindum glæpasamtök sem vinni að því að fela eignir og peninga sem aflað hafi verið með vafasömum hætti. Sagði hún vísbendingar um að brasilískur umboðsmaður Mossack Fonseca hafi fengið fyrirmæli um að fela gögn og fjarlægja sönnunargögn um ólöglegt athæfi í tengslum við bílaþvottahneykslið.

Það má einfaldlega segja, sagði Porcell, að peningarnir séu mútufé, sem fari í gegnum ákveðna hringrás nokkurra fyrirtækja, og komi svo aftur, hvítþvegið, til Panama. Sagði hún ákærur hafa verið samdar og lagðar fram gegn fjórum einstaklingum, þar á meðal þeim félögum, Mossack og Fonseca. 
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi