Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mossack Fonseca hættir starfsemi

14.03.2018 - 23:26
epaselect epa05242948 Photo shows the building where the office of Panamanian law firm Mossack Fonseca is located in Panama City, Panama, 03 April 2016. 11 million documents from Mossack Fonseca database were leaked allegedly exposing high profile tax
 Mynd: EPA - EFE
Ákveðið hefur verið að loka lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama í lok mánaðar. Forsvarsmenn stofunnar tilkynntu um þetta í kvöld og kenndu um neikvæðri fjölmiðlaumfjöllun í kjölfar lekans á Panamaskjölunum árið 2016 og óréttmætum aðgerðum yfirvalda.

Mossack Fonseca sá viðskiptavinum sínum fyrir þjónustu við stofnun og rekstur aflandsfyrirtækja og var sú fjórða stærsta í heiminum á því sviði. Hún rataði í heimsfréttirnar í apríl 2016 þegar fjölmiðlar fjölluðu um Panamaskjölin svokölluðu – gögn sem lekið var út af stofunni um viðskiptavini hennar til rúmlega fjögurra áratuga.

„Orðsporshnekkirinn, fjölmiðlaherferðin og fjárhagslegar afleiðingar þessa, auk óeðlilegra aðgerða panamískra yfirvalda, hafa valdið óbætanlegum skaða sem leiðir til þess að öll almenn starfsemi fyrirtækisins leggst niður í lok mánaðar,“ segir í yfirlýsingu frá Mossack Fonseca. Þar kom þó fram að lítið teymi yrði áfram starfandi til að sinna erindum frá yfirvöldum og öðrum opinberum aðilum sem og einkaaðilum.

Einn af stofnendum Mossack Fonseca, þýski lögmaðurinn Jürgen Mossack, sagði í ágúst að flestum alþjóðlegum skrifstofum fyrirtækisins hefði verið lokað í kjölfar lekans.

Miklar afleiðingar lekans

Fjölda Íslendinga var að finna í Panamaskjölunum, þeirra á meðal Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, og félagið Wintris, sem var í eigu konu hans og hans sjálfs áður. Sigmundur sagði af sér í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um skjölin og mótmæla sem blásið var til vegna málsins. Bjarni Benediktsson, þáverandi og núverandi fjármálaráðherra, var einnig í skjölunum í tengslum við félagið Falson & Co. Seychelles-eyjum, sem Bjarni átti þriðjungshlut í.

Þá hafa skattayfirvöld haft skjölin til skoðunar og rannsóknar, enduráætlað skatt á fjölda einstaklinga og fyrirtækja á grundvelli þess sem kemur fram í þeim og rannsakað önnur mál sem sakamál.