Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Moses í Háskólabíó 22. sept 2017

Mynd með færslu
 Mynd: Moses Hightower

Moses í Háskólabíó 22. sept 2017

19.07.2018 - 19:24

Höfundar

Í Konsert í kvöld förum við á frábæra tónleika með Moses Hightower! –

Nefnilega útgáfutónleika sem fóru fram í Háskólabió föstudagskvöldið 22. September í fyrra.

Sveitin var að halda uppá og fagna útgáfu þriðju plötu sinnar; Fjallaloft, sem kom út skömmu síðasta sumar en sú plata hefur að geyma slatta af lögum sem hafa heyrst talsvert á Rás 2, t.d. Feikn, Trúnó, Snefill og svo titillagið.

Moses Hightower er fjögurra manna band sem er búið að vera starfandi í meira en áratug og í Moses er valinn maður í hverju rúmi.  Þær eru vandfundnar hljómsveitirnar sem eru betur spilandi og hafa á að skipa eins sterkri heild og Moses Hightower.

Á gítar er Daníel Friðrik Böðvarsson, Magnús Trygvason Eliassen trommar, bassaleikari og söngvari er Andri Ólafsson og á hljómborð spilar Steingrímur Karl Teague auk þess að syngja. Allir eru þeir yfirburðamenn á sín hljóðfæri og eftirsóttir, hafa spilað með óteljandi fjölda tónlistarmanna og hljómsveita á undanförnum árum. Og á svipaðan hátt og hinir bandarísku Eagles voru upphaflega hljómsveitin hennar Lindu Ronstadt, þá var Moses upphaflega bandið hennar Dísu Jakobs.

Fysta lag sveitarinnar án Dísu heitir Búum til börn og það vakti talsverða athygli, var t.d. mikið spilað á Rás 2. Og svo kom fyrsta platan sem heitir líka Búum til börn (2010). Hún þótti vel heppnuð og var tilnefnd í tveimur flokkum til íslensku tónlistarverðlaunanna.

Önnur platan; Önnur Mósebók, hlaut einróma lof gagnrýnenda og var m.a. valin plata ársins 2012 hjá Fréttablaðinu. Hljómsveitin hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin það árið fyrir lagasmíðar og textagerð, og 5 tilnefningar þar að auki.

Svo kom þriðja platan; Fjallaloft, síðasta sumar og titillag plötunnar var í 3 vikur á toppi vinsældalista Rásar 2 í fyrra, í kringum útgáfuna. Og rétt fyrir útgáfutónleikana sem við ætlum að hlusta á í Konsert í kvöld kom sveitin í std. 12 og tók meðal annars lagið Wuthering heights eftir Kate Bush, og það þótti svo vel heppnað að við ákváðum að spila það oftar en einu sinni og það gerði sér lítð fyrir og settist í toppsæti vinsældalistans og sat þar í heilan mánuð.

Og þegar tónlistarárið 2017 var gert upp stóð Moses Hightower uppi sem einn af sigurvegurunum, strákarnir fóru heim með verðlaun í flokknum "lagasmiðir ársins", en þeir voru líka tilnefndir í flokkunum "lag ársins" fyrir Fjallaloft, Steingrímur sem "söngvari ársins", og platn "popp-plata ársins".

Með þeim fjórum sem skipa Moses voru á tónleikunum í Háskólabíó í september þeir Kjartan Hákonarson og Ari Bragi Kárason á trompeta og flugelhorn. Óskar Guðjónsson á tenórsax, Björgvin Ragnar Hjálmarsson á tenór- og baritónsaxa og Samúel Jón Samúelsson á básúnu. Styrmir Hauksson spilaði á hljóðgervla, hljóðsmala og slagverk.

Í fréttum er það svo helst að Moses situr sveittur við tón- og textasmíðar og ætlar að taka upp nokkur lög með haustinu, en því ferli öllu saman verða gerð góð skil í sjónvarpsþætti á RÚV þegar fram líða stundir. 

Liðsmenn sveitarinnar eru búsettir hingað og þangað um heiminn og spila ekki oft, en hljómsveitin er þrátt fyrir það starfandi á fullu.

Á útgátónleikunum í Háskólabíó 22. September sl. spilaði Moses fyrst alla nýju plötuna, Fjallaloft, fyrir hlé og svo eftir hlé voru það meira "Greatest hits"!

Styrmir Hauksson hljóðblandaði bæði þessa tónleikaupptöku og plötuna Fjallaloft, ásamt því að hljómjafna plöturnar Búum til börn og Aðra Mósebók.

Hljóðmaður í sal var Þröstur Albertsson, um sviðshljóð sá Friðjón Jónsson, og ljósahönnuður var Axel Ingi Ólafsson.

Tengdar fréttir

Tónlist

Síðan Skein Sól í 30 ár

Tónlist

Sweden Rock og Roskilde

Tónlist

Iron & Wine í Genf

Tónlist

Neil í Roxy og Zeppelin í Forum