Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mósaíkmynd af Abraham Lincoln

Mynd: AP / AP

Mósaíkmynd af Abraham Lincoln

22.10.2017 - 16:09

Höfundar

Bandaríski rithöfundurinn George Saunders fékk í vikunni sem leið Man Booker verðlaunin fyrir skáldsögu sína Lincoln in the Bardo. Saunders er annar Bandaríkjamaðurinn til að fá verðlaunin, en í fyrra fékk Paul Beatty þau fyrir bókina The Sellout.

Lincoln in the Bardo er fyrsta skáldsaga George Saunders, en hann hefur verið þekktur sem smásagnahöfundur til þessa. Þetta er söguleg skáldsaga, sem gerist í miðju þrælastríði Bandaríkjanna. Hugmyndina að bókinni fékk Saunders fyrir rúmum tuttugu árum í Washington þegar hann heyrði söguna af því að Abraham Lincoln, forseti Bandaríkjanna, hefði reglulega heimsótt og farið inn í grafhýsi sonar síns Willie, sem lést úr taugaveiki 11 ára gamall 1862. Þessi sýn – Abraham Lincoln með látinn son sinn í fanginu – fór ekki úr huga Saunders.

Mynd með færslu
 Mynd: cc
Abraham Lincoln og sonur hans Willie.

Harmi sleginn vitjar forsetinn sonar síns nótt eina stuttu eftir andlátið. Willie er staddur í grafhýsinu, fastur í ástandi sem kallast „bardo“ – sem er tíbetskt orð yfir svæðið milli þessa lífs og þess næsta. Willie er þar í félagsskap 164 dauðra sála, sem einnig sitja fastar á milli tilverustiga og tala hver ofan í aðra. Willie þráir samskipti við föður sinn og faðirinn samskipti við soninn. Í úrskurði dómnefndar Man Booker verðlaunanna segir að formið og stíllinn í þessari óvenjulegu skáldsögu sé gott dæmi um skemmtilegan og áhrifamikinn frásagnarstíl Saunders.

Þórdís Helgadóttir skáld er mikill aðdáandi George Saunders. Hún kynntist höfundinum í gegnum smásögur hans og kolféll um leið. „Sögurnar hans eru eins og rússíbanareið. Manni er skutlað inn í einhvern heim þar sem maður fótar sig ekkert endilega til að byrja með. Maður þarf bara að treysta höfundinum. Smám saman þá fer maður að sjá útlínur rússíbanans og hvernig þessi heimur allur lítur út. Þá áttar maður sig á því að höfundurinn hefur allan tímann algjöra stjórn á því sem hann er að gera.“

George Saunders getur verið erfiður aflestrar. Hann hefur það orð á sér að vera „höfundahöfundur“, það er rithöfundur sem aðrir höfundar hafa gaman af að lesa. Þórdís segir samt að hann skemmti alltaf lesendum sínum – og það borgi sig að treysta honum.

„Maður býst við einhverju óvenjulegu og tilraunakenndu ef maður þekkir hann,“ segir Þórdís, en Lincoln in the Bardo er stór, brotakennd og margradda skáldsaga. „Hann er að fjalla um sorgina, þjáninguna og missinn og hvernig við ætlum að bregðast við,“ segir Þórdís. „Mér finnst þetta ótrúlega falleg bók. Hann er í senn yfirvegaðar og með blæðandi hjarta af hluttekningu fyrir einhvern veginn öllum.“

Halla Harðardóttir fjallaði um skáldsögu George Saunders og ræddi við Þórdísi Helgadóttur í Víðsjá á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

George Saunders fékk Man Booker verðlaunin

Bókmenntir

Bandaríkjamenn og Bretar slást um Man Booker