Morrissey í París

Mynd með færslu
 Mynd:

Morrissey í París

14.01.2015 - 09:07
Konsert vikunnar á Rás 2 er Morrissey í París 27. október sl. Upptaka sem BBC gerði fyrir samtök evrópska útvarpsstöðva - EBU.

Morrissey var eins og margir vita söngvari hinnar áhrifamiklu ensku hljómsveitar, The Smiths. Hann sagði skilið við sveitina eftir 5 ára rússíbanareið árið 1987 og hefur sent frá fjölda platna síðan þá og túrað aftur og aftur um heiminn þveran og endilangan.

Morrissey kom til Íslands og spilaði í Laugardalshöll í ágúst 2006 og það var mikill gleðidagur fyrir marga.

Stephen Patrick Morrissey er Englendingur, 55 ára gamall sonur írskra Kaþólikka, alinn upp í Manchester. Hann fékk ungur mikinn áhuga á tónlist og sér í lagi söngkonum eins og Melanie Safka (sem var einmitt í heimsókn á Íslandi síðasta haust), Sandy Shaw og Marianne Faithful.

Hann stofnaði aðdáendaklúbb New York Dolls þegar hann var unglingur og árið 1982 þegar hann var 23 ára gamall kynntist hann gítarleikaranum Johnny Marr og hljómsveitin The Smiths varð til, en þá var hann reyndar búinn að vera í nokkrum hljómsveitum á undan, var t.d í hljómsveit með Billy Duffy sem síðar átti eftir að stofna The Cult.

Smiths slóð í gegn um allan heim, náði heimsfrægð, og Morrissey nýtur enn í dag góðs af því.

Það hefur aldrei verið logn í kringum Morrissey, hann er sérstakur náungi sem liggur ekki á skoðunum sínum og fyrir vikið er hann umdeildur. Hann er elskaður og dáður í öllum skúmaskotum heimsins, en þeir eru líka fjölmargir sem þola hann alls ekki af ýmsum ástæðum. Sumir þola ekki söngröddina, aðrir þunglyndishlaðna textana og enn aðrir skoðanir hans á mönnum, dýrum og málefnum.

Það sem er helst og nýjast að frétta af Morrissey er að hann sendi frá sér ævisögu sem hann skrifaði sjálfur á sinn kaldhæðna hátt í október 2013. Hún seldist vel en var umdeild strax eins og allt sem Morrisey gerir. Hann er um þessa mundir langt kominn með sína fyrstu skáldsögu sem gerir honum kleyft (hefur hann sagt sjálfur) að hætta alveg að syngja ef hún gengur vel. "Þá yrðu nú margir glaðir" hefur hann sagt.

Í upphafi 2013 lenti Morrissey á sjúkrhúsi með blæðandi magasár. Hann fékk svæsna lungnabólgu í mars 2013, matareitrun í júlí sama ár og var enn og aftur lagður inn á a sjúkrahús, og svo enn einu sinni með öndunarfæra-sýkíngu síðasta sumar....

Í janúar í fyrra gerði hann plötusamning við Capitol- Harvest fyrirtækið sem hljóðaði upp á tvær stórar plötur, en í ágúst sleit fyrirtækið samningnum. Hann sagði þá að fyrirtækið og stjórnendur þess væru ekki hrifnir af fólki með skoðanir og fylgdi því svo eftir með bolum sem á stóð; Fuck Harves, og hljómsveitin hans klæddist á tónleikum. Harvest var þá nýbúið að gefa út nýjustu plötuna hans, 10undu plötuna; World peace is none of your business.

Hún kom út í júlí, en skömmu áður fór Morrissey í túr um Bandaríkin. Hann lenti á sjúkrahúsi í Boston og þurfti að aflýsa restinni af túrnum, 9 tónleikum. Hann hreinlega hneig niður á tónleikunum og var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl...

Í kjölfarið opinberaði hann það að hann væri búinn að vera í krabbameinsmeðferð en vildi ekki fara nánar út í það. "Kannski dey ég, kannski ekki. Í augnablikinu líður mér vel og ég er hress. Fólk hefur kannski tekið eftir því að það hafa birst ljósmyndir af mér undanfarið þar sem ég lít ekki alltof vel út, en það er jú það sem gerist þegar maður er veikur. En ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því og ég hvíli mig þegar ég er dauður" sagði hann í viðtali.

En svo fór hann í tónleikaferð um Evrópu í haust og Konsert vikunnar var hljóðritaðir af Andy Rogers hjá BBC fyrir EBU, samtök evrópskra útvarpsstöðva í París 27. október sl.

UNdir lokin rifum við svo upp nokkur lög frá tónleikum Apparat Organ Quartet á Iceland Airwaves í Laugardalshöll árið 2002, en þar var maður vikunnar, Jóhann Jóhannsson sem hlaut í vikunni Golden Globe verðlaun fyrstur íslendinga, fyrir tónlist sem hann samdi fyrir kvikmyndina The Theory of Everything.

Í Konsert er boðið upp á tónleikaupptökur víðsvegar að úr heiminum, frá ýmsum tímum og úr ólíkum tónlistaráttum. Nýjar og gamlar tónleikaupptökur úr safni Rásar 2 í bland við upptökur frá tónlistarhátíðum á borð við Roskilde, Sonar, Eurosonic, Glastonbury, Electric Picnic, Iceland Airwaves og fleiri, auk þess sem rykið er dustað af einni og einni gamalli tónleikaplötu og einstaka sinnum er ný tónleikaplata sett undir nálina. 

Konsert er á dagskrá Rásar 2 á fimmtudagskvöldum kl. 22.05 og þátturinn er einnig fáanlegur í Hlaðvarpi RÚV.

Umsjón: Ólafur Páll Gunnarsson
[email protected]