Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Mörkum friðlands Þjórsárvera breytt

Mynd með færslu
 Mynd:
Umhverfisráðherra hefur ákveðið að breyta friðlýsingarskilmálum Þjórsárvera þannig að hægt verði að ráðast í gerð nýrrar útfærslu af Norðlingaölduveitu. Mörk friðlandsins verða dregin í kringum hugsanlegt lónsstæði, líkt og Landsvirkjun lagði til í sumar.

Samstaða hefur verið um að stækka friðland Þjórsárvera til muna.  Í sumar frestaði hinsvegar nýr umhverfisráðherra friðlýsingunni rétt áður en kom að því að staðfesta hana, eftir að athugasemdir bárust frá Landsvirkjun.   Fyrrverandi umhverfisráðherra hafði þá ætlað að stækka friðlandið þannig að það hefði komið í veg fyrir nýja útfærslu Norðlingaölduveitu en veitukosturinn með lónshæð í 566 m. til 567,5m hæð yfir sjávarmáli er í verndarflokki rammaáætlunar.

Í bréfi til ráðherra í sumar setti Landsvirkjun fram þrjár tillögur um nýjar útfærslur friðlands Þjórsárvera svo kanna mætti nýja útfærslu Norðlingaölduveitu. Ein tillagan gerði ráð fyrir því að mörk friðlandsins yrðu dregin í kringum hugsanlegt lónstæði. Nú er komið á daginn að ráðuneytið hefur lagt það til.  

Samkvæmt náttúruverndarlögum annast Umhverfisstofnun undirbúning friðlýsingar og leggur friðlýsingarskilmála fyrir landeigendur, sveitarfélög og fleiri sem eiga hagsmuna að gæta. Í bréfi Umhverfisstofnunar til tveggja sveitarfélaga, sem dagsett er 27. desember síðastliðinn, segir að ráðuneytið hafi komist að framangreindri niðurstöðu. Stofnunin leitar nú umsagnar hreppsnefnda Ásahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps auk annarra sveitarfélaga er hafa skipulagsvald innan friðlandsins