Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Morgunleikfimi áfram á Rás 1

27.08.2014 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Morgunleikfimi með Halldóru Björnsdóttur verður áfram á dagskrá Rásar 1 í vetur. Í lok þáttarins í morgun var tilkynnt komið væri að leiðarlokum og þátturinn sá síðasti. Sú er þó ekki raunin.

Morgunleikfimin er rúmlega tíu mínútna þáttur þar sem hlustendur eru leiddir í gegnum léttar líkamsæfingar. Í lok þáttar í morgun, sagði Halldóra að komið væri að leiðarlokum. „Nú er svo komið að rúmlega tíu mínútum sem varið er af dagskrá Rásar 1 virka daga vikunnar, þykja of fyrirverðarmiklar og verða að víkja fyrir öðrum dagskrárliðum.“

Fjöldi hlustenda hafði í kjölfarið sambandið við Ríkisútvarpið og lýsti óánægju með brotthvarf Morgunleikfiminnar. Að sögn Þrastar Helgasonar, dagskrárstjóra Rásar 1, stendur þó til að Morgunleikfimin verði áfram á dagskrá. Gert hafi verið ráð fyrir að þátturinn yrði með breyttu sniði. Þegar þátturinn hafi verið tekinn upp, hafi þær breytingar verið fyrirhugaðar. Þátturinn sem sendur var út, hafi farið í loftið fyrir mistök. Morgunleikfimin verði áfram á sínum stað. 

Halldóra Björnsdótttir segist hafa séð um Morgunleikfimina í nær 27 ár. Þátturinn hafi verið á dagskrá útvarpsins í rúm 57 ár.