Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Morgunbænin áfram í útvarpinu

19.08.2014 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkvæmt fréttatilkynningu frá útvarpsstjóra hefur verið ákveðið, að höfðu samráði við Biskup Íslands, að bjóða áfram upp á dagskrárlið að morgni þar sem flutt verður morgunbæn og orð dagsins. Í þættinum verður flutt stutt hugvekja og bæn. Dagskrárliðurinn verður fluttur klukkan 6:25.

Með þessu er brugðist við óánægju með að fella átti dagskrárliðina niður, en til stóð að Ríkisútvarpið hætti að útvarpa Orði kvöldsins og Morgunbæn á Rás 1. 

Beinar útsendingar frá messum í kirkjum landsins verða áfram á dagskrá Rásar 1 og sem fyrr býður RÚV upp á hátíðardagskrá. 

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, fagnar því í pistli á vefsíðu sinni að morgunbænin verði áfram á dagskrá. „Ég fagna því að morgunbæn og hugvekja verði á dagskrá Rásar 1 að morgni og fái aukið vægi. Það er mikilvægt að bænarorðin hljómi á öldum ljósvakans og verði okkur veganesti í dagsins önn,“ skrifar Agnes.

Hún segir jafnframt leitt að ekki sé rými fyrir kvöldbæn í nýrri dagskrá Rásar 1.