Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Mörg sveitarfélög mjög skuldsett

Mynd með færslu
 Mynd:
Þróun í fjármálum sveitarfélaga frá hruni er almennt jákvæð. Þó eru mörg svo skuldsett að nokkur ár þarf til þess að skera úr um hvort þau ráði við stöðuna. Þetta kemur fram í ársskýrslu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga fyrir árið 2012.

Komist sveitarfélag í svo erfiða stöðu að ekki sé unnt að standa í skilum skal það tilkynnast til eftirlitsnefndarinnar. 39 sveitarfélög stóðust ekki fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga miðað við ársreikninga 2011. Á annan tug sveitarfélaga skulduðu meira en 200% af tekjum sínum í árslok 2011. Sandgerðisbær skuldaði 388% af tekjum sínum, Reykjanesbær 297% og Fljótsdalshérað 256%. Í skýrslunni segir að möguleikar til lækkunar skulda séu góðir þó sveitarstjórnum þessara sveitarfélaga og ýmissa annarra bíði erfitt verkefni. 

Þau sveitarfélög sem skulduðu í lok ársins 2011 meira en 150% af tekjum sínum fengu allt að áratug til að ná 150% skuldaviðmiði og gera þarf meiri kröfur í rekstri gagnvart þeim. Í fyrra greip eftirlitsnefndin ekki til sérstakra aðgerða vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélags. Fjárhagsleg úttekt var gerð fyrir Svalbarðshrepp og Vesturbyggð í fyrra með það að markmiði að bæta fjárhagsstöðuna. Þá hefur nefndin sérstaklega haft stöðu Sandgerðisbæjar, Skaftárhrepps og Grundarfjarðarbæjar til umfjöllunar.