Mörg sjónarmið takist á um heimild til upptöku

29.11.2018 - 16:47
Mynd:  / 
Fjölmiðlar hafa víðtækar heimildir ti að fjalla um stjórnmálamenn en það er ekki þar með sagt að þeir eigi ekki að njóta friðhelgi einkalífs, segir Áslaug Björgvinsdóttir lögfræðingur sem hefur mikla reynslu af persónuverndarmálum. Hún segir að ýmsu að huga þegar kemur að því að meta hvort heimilt sé að taka upp samtöl fólks og birta þau opinberlega.

Áslaug var gestur í Samfélaginu á Rás 1 vegna frétta sem unnið hafa verið upp úr upptökum af samtölum sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á bar við þinghúsið. DV og Stundin hafa flutt fréttir byggðar á upptökum sem fjölmiðlarnir segja að gestur á staðnum hafi tekið.

Fjórir þingmenn Miðflokksins, þau Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir (sem sjást hér að ofan), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason sendu frá sér afsökunarbeiðni vegna ummæla sem féllu í samtali þeirra á barnum Klaustur við hlið Alþingis. Þau hafa verið gagnrýnd fyrir kvenfyrirlitningu og niðurlægjandi ummæli. 

Áslaug segir að það fari eftir eðli upptökunnar hvort hún sé lögleg samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni. Þannig sé ekkert í persónuverndarlöggjöfinni sem mæli gegn því að einstaklingur taki upp samtöl fjölskyldu eða vina til einkanota. Ef fólk tekur hins vegar upp tal annarra með það fyrir augum að gera upptökuna opinbera þurfi að uppfylla skilyrði persónuverndarlaga. Þar sé meðal annars kveðið á um heimildir sem réttlæti upptöku, þeirra á meðal sé það að sá sem tekinn er upp veiti samþykki fyrir upptökunni. Áslaug segir að staðurinn skipti ekki öllu máli, þó megi taka til skoðunar hverju menn megi búast við. „Þegar þú situr inni á bar: máttu búast við því að vera tekinn upp eða ekki?“

Eðli og vinnsla geti ráðið miklu

Það hvort upptaka sé heimil geti þó ráðist af eðli upplýsinganna. „Ef viðkomandi getur fært rök fyrir því að það séu lögmætir hagsmunir til staðar, annað hvort viðkomandi eða þriðja aðila, sem vega þyngra heldur en hagsmunir þessara einstaklinga af því að njóta friðhelgi einkalífsins, þá getur það mögulega verið heimild fyrir vinnslu. Þannig að efnið getur vissulega skipt máli.“

Heimildir fjölmiðla eru annars konar en heimildir einstaklinga. Þar verði bæði að skoða eðli upplýsinganna og hverra tal var tekið upp, segir Áslaug. „Fjölmiðlar hafa almennt víðtækar heimildir til að fjalla um opinberar persónur eins og stjórnmálamenn, og auðvitað ekki síst ef efnið varðar hvernig þessir viðkomandi aðilar sinna sínum sögum. Það er þó ekki þar með sagt að þessir opinberu aðilar eigi ekki að njóta friðhelgi einkalífs. Þetta er auðvitað alltaf eitthvað sem togast á.“

Rosalega matsgjarnt

Fjölmiðlar þurfa ekki að uppfylla lögmætisskilyrði um samþykki eða lögmæta hagsmuni fyrir vinnslu en þeir þurfa að uppfylla meginreglur um að vinnsla sé sanngjörn og málefnaleg, segir Áslaug. „Það er svo auðvitað svo rosalega matsgjarnt, hvað sé sanngjörn vinnslan og hvað er málefnalegt. Þar eru fjölmiðlar ekki alltaf sammála.“

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV