Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mörg fíkniefnamál á Extreme Chill Festival

10.08.2015 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
29 fíkniefnamál komu inn á borð Lögreglunnar á Vesturlandi um helgina, langflest tengd tónlistarhátíðinni Extreme Chill Festival á Hellissandi á Snæfellsnesi. Um 200 gestir sóttu hátíðina og var löggæsla aukin til muna frá fyrri árum. Tvisvar sinnum var gerður aðsúgur að lögreglu á hátíðinni.

Lögregla lagði að mestu hald á neysluskammta en einnig fundust efni sem talið er að ætluð hafi verið til sölu. Mest fannst af kannabisefnum en einnig amfetamín og kókaín, auk ofskynjunarsveppa, LSD og MDMA. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru margir samkomugestir ósáttir við afskipti lögreglu og tvívegis var gerður aðsúgur að lögreglunni þegar hún hafði afskipti af fólki.

Tvö barnaverndarmál komu upp á hátíðinni. Lögregla hafði afskipti af fólki á tjaldstæði, þar sem það neytti fíkniefna og var með ung börn. Voru þau mál sett í hendur barnaverndar.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður