Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mörg félög eiga enn eftir að semja

10.03.2020 - 09:56
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Þó að samningar hafi tekist við flest félög innan BSRB á enn eftir að semja við fjölmörg félög opinberra starfsmanna. Hjúkrunarfræðingar telja að stytting vinnuvikurnar hjá vaktavinnufólki hafi í för með sér launalækkun meðal hjúkrunarfræðinga og 11 BHM-félög sætta sig ekki við tvískipta yfirvinnutaxta.

Þó að samningar við BSRB-félögin hafi tekist á síðustu stundu er ekki þar með sagt að kjaraviðræðum séu lokið. Það er ekki ólíklegt að þau félög sem enn eiga eftir að semja muni halda upp á eins árs afmæli kjaraviðræðna. Samningar flestra þessara félaga losnuðu 1. apríl á síðasta ári.

Launalækkun vegna breytinga á vaktavinnu

Hjúkrunarfræðingar hafa ekki enn samið. Þeir skrifuðu vissulega undir samkomulag um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki. Hjúkrunarfræðingar eru stétt sem vinnur talsvert mikið á vöktum og breytingarnar sem eru boðaðar vegna styttingar vinnuvikunnar geta breytt miklu í starfsumhverfi þeirra. Vinnuvikan á að styttast úr 40 í 36 stundir og getur í ákveðnum tilfellum styst í 32 stundir. 32 stundir svara nú til 80 prósenta hlutastarfs. Það þýðir að sá sem er í 80% starfi getur komist í 100% starf, vinnur áfram sömu 32 tímana en fær launahækkun með því að komast í 100%. Samt sem áður telja hjúkrunarfræðingar að breytingarnar geti þýtt launalækkun fyrir fjölmarga hjúkrunarfræðinga og um þetta er meðal annars tekist á um við samningaborðið með ríkinu.

Í stuttu máli snýst málið um að fyrir tveimur árum var samið um að greiða ákveðin viðbótarlaun til að hvetja hjúkrunarfræðinga til að auka starfshlutfallið. Sá sem var í 80% hlutfalli fékk eða fær ákveðinn kaupauka og sömuleiðis sá sem var í 90 og 100% starfshlutfalli. Þessar hækkanir eru metnar á  um 5 til 10 prósenta launahækkun. Þessar greiðslur eiga að falla niður með tilkomu samkomulags um vaktavinnu. Þetta á einkum við um Landspítalann sem hefur greitt þennan kaupauka sjálfur ef svo má að orði komast. Heildarupphæðin er nálægt einum milljarði króna. 

Ósátt við tvískipta yfirvinnu

Ríkið hefur þegar samið við átta BHM-félög. Hins vegar er ósamið við 13 félög innan BHM. 11 þessara félaga halda hópinn. BHM-11 eins og hópurinn er kallaður leggst gegn því að yfirvinnutaxtar verði tvískiptir, yfirvinna 1 og 2. Yfirvinna eitt er aðeins lægri eða 0,9385 af launum. Anna María Frímannsdóttir, formaður samninganefndar félaganna 11 segir að krafan sé að yfirvinnan verði óbreytt.

„Við höfum alveg frá upphafi talað fyrir því að yfirvinnan verði óbreytt. Þessi breyting kemur illa við okkar félagsmenn. Sérstaklega þá sem eru í hlutastörfum.“

Samningalotan ekki búin

 En það eru fleiri opinber félög sem eiga eftir að semja, Kennarar, læknar, tollverðir, lögreglumenn, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og loks Félag starfsmanna Stjórnarráðsins. Við þetta má bæta bæði Blaðamannafélagi Íslands og Félagi fréttamanna.

Um þetta var samið við ríkið

En það tókust samningar hjá flestum BSRB-félaganna í nótt hjá ríkissáttasemjara. Á lokakaflanum var einkum tekist á um launaliðinn í viðræðunum við ríkið. Niðurstaðan er að mánaðarlaun upp að 15. launaflokki í 1. þrepi hækka um 90 þúsund krónur á samningstímanum. Taxtalaun í þessum flokki nema 416 þúsund krónum sem þýðir að mánaðarlaunin fara í 506 þúsund krónur. 90 þúsund króna hækkunin trappast svo smám saman niður í 68 þúsund króna hækkun launa. Allra efstu flokkarnir hækka svo um 12,5%, flokkur 50 upp í 54. Segja má að þessi leið sem farin var sé eins konar stef við lífskjarasamninginn.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV