Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Morales segir lífi sínu hafa verið ógnað

13.11.2019 - 01:42
epaselect epa07991462 Mexican Foreign Minister, Marcelo Ebrard (L), receives the former President from Bolivia Evo Morales (R) in the International Airport of Mexico City, Mexico, 12 November 2019. Evo Morales, who resigned on 10 November, arrived to Mexico to claim asylum onboard a plane of the Mexican Air Force that left Bolivia last night.  EPA-EFE/Mario Guzman
Utanríkisráðherra Mexíkó, Marcelo Ebrard (t.v.) fagnar Evo Morales við komuna til Mexíkó. Mynd: EPA-EFE - EFE
Evo Morales, fyrrverandi forseti Bólivíu, er kominn til Mexíkóborgar, þar sem honum var boðið pólitískt hæli eftir afsögn hans á sunnudag. Á stuttum fréttamannafundi sem hann boðaði til skömmu eftir komuna til borgarinnar sagðist hann hafa beiðst hælis þar sem fé hefði verið sett til höfuðs honum og líf hans hefði verið í hættu.

Morales sagði af sér síðastliðinn sunnudag í kjölfar margra vikna, harðra og mannskæðra mótmæla vegna meintra kosningasvika hans og fólks á hans vegurm í nýafstöðnum forsetakosningum. Á fréttamannafundinum sagðist hann hafa verið þvingaður til að segja af sér, en gerði það engu að síður af fúsum og frjálsum vilja „til að koma í veg fyrir frekari blóðsúthellingar." Fullyrti hann að 50.000 Bandaríkjadalir, jafnvirði ríflega sex milljóna króna, hefðu verið lagðir til höfuðs honum af „samsærismönnum um valdarán."

Forsetinn sagðist afar þakklátur Andresi Manuel Lopez Obrador, Mexíkóforseta, fyrir að veita sér hæli og bjarga þar með lífi sínu. „Svo lengi sem ég held lífi mun ég halda áfram í stjórnmálum, baráttan heldur áfram," sagði Morales. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV