Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Morales fær ekki að bjóða sig fram á ný

22.02.2016 - 01:49
epa05173888 President of Bolivia Evo Morales casts his vote at the Villa 14 de Septiembre school, Chapare town, Cochabamba, central Bolivia, 21 February 2016. Morales urged citizens to participate in a referendum to approve or reject a constitutional
 Mynd: EPA - EFE
Samkvæmt útgönguspám höfnuðu bólivískir kjósendur því að Evo Morales fái að bjóða sig fram til síns fjórða kjörtímabils sem forseti landsins. Hann er þegar sá maður sem lengst hefur gegnt embætti forseta.

Niðurstaða útgönguspár Ipsos sýnir að rúm 52 prósent hafi hafnað því að Morales fái að bjóða sig fram þegar kjörtímabilinu lýkur, en tæp 48 prósent eru hlynnt því. Sjálfur bjóst hann við allt að 70 prósent stuðningi, en verði niðurstaðan í samræmi við spár er Morales að fara að tapa sínum fyrstu kosningum.

Andstæðingar Morales segja beiðni hans ólýðræðislega. Stjórnarskráin geri aðeins ráð fyrir því að forseti sitji í þrjú kjörtímabil. Í janúar voru tíu ár liðin frá því Morales tók við embætti og varð hann þá sá leiðtogi sem lengst hefur setið í forsetastól frá því Bólivía hlaut sjálfstæði frá Spáni árið 1825.

Uppgangur hefur verið í efnahag Bólivíu í forsetatíð Morales. Andstæðingar saka hann hinsvegar um spillingu og hann eyði um of í gæluverkefni á kostnað heilbrigðis- og menntakerfisins. Nýjasta, og líklega skaðlegasta, spillingarmálið sem hann tengist eru ásakanir um að hann hafi beitt sér fyrir því að kínverska verktakafyrirtækið CAMC stýrði vinnu við stækkun járnbrautakerfisins í landinu. Einn yfirmanna CAMC í Bólivíu er Gabriela Zapata, fyrrverandi kærasta Morales.

Sjálfur segir hann ásakanirnar þvætting runninn úr rifjum bandaríska sendiráðsins til þess að grafa undan honum. Hann hafi ekkert að fela. Til þess að hreinsa nafn sitt hefur hann beðið yfirvöld um að rannsaka útboðsferlið sem varð til þess að stjórnvöld skrifuðu undir samning við CAMC.