Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Möndlumjólk frá grunni

26.11.2015 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm
Það er ótrúlega einfalt að gera möndlumjólk sjálfur. Í mörg ár þorði ég ekki einu sinni að reyna því ég hélt að það væri svo mikið vesen að leggja möndlur í bleyti. En að leggja í bleyti er ekkert mál, maður bara setur möndlur í skál og vatn út á. Það er allt og sumt! Möndlumjólkin er drekkhlaðin næringu.

Möndlumjólk frá grunni

1 dl möndlur
4 dl vatn
1-2 msk. mórber eða 2-3 döðlur (má sleppa)
½-1 tsk. vanilluduft (má sleppa)
Spírupoki eða fíngert sigti (ef þið ætlið að sigta mjólkina)

Leggið möndlurnar í bleyti í skál og látið vatn fljóta vel yfir þær.
Eftir nokkrar klukkustundir (5-10 klst.) skolið þið þær vel undir köldu vatni og setjið í blandara með afganginum af uppskriftinni, 4 dl af nýju köldu vatni úr krananum og blandið mjög vel.
Sigtið í gegnum spírupoka eða mjög fínt sigti. Það þarf ekki en ég geri það alltaf fyrir börn.
Geymið í hreinni flösku inni í ísskáp. Möndlumjólkin geymist í um 2 daga.

*Athugið ef þið notið spírupoka þarf hann að vera mjög hreinn. Það er gott að þvo spírupoka í neti með handklæðum á suðu mjög reglulega.
*Möndlumjólkin eyðileggst hratt (súrnar og verður ónýt) ef hreinlætis er ekki gætt nægilega vel.
*Það er upplagt að frysta möndlumjólk ef hún klárast ekki á næstu 2 dögum.
*Einnig má sæta mjólkina með stevíu.
*Gefur um það bil 350 ml af möndlumjólk.

Súkkulaðibananamöndlumjólk

 1 ½ dl möndlumjólk
½ dl kalt vatn
1 banani (lítill & þroskaður)
1 msk. kakó (má sleppa)
Nokkrir klakar

Blanda vel = möndlukakó eða bananamjólk!

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir