Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mónakó og Monte Carlo fá ekki leyfi

02.12.2011 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglustjórninn á höfuðborgarsvæðinu mun ekki framlengja rekstrarleyfi skemmtistaðanna Mónakó og Monte Carlo við Laugaveg í Reykjavík þar sem borgarráð hefur mælt gegn því. Lögmaður eiganda veitingastaðanna hyggst kæra ákvörðunina til innanríkisráðuneytisins.

Borgarráð samþykkt í byrjun síðasta árs að veita stöðunum tveimur eins árs rekstrarleyfi með skilyrðum. Það helsta var að ónæði sem verið hefði af stöðunum minnkaði. Næstu ellefu mánuði eftir að leyfið var gefið út skráði lögreglan áttatíu og fimm brot í og við skemmtistaðinn Monte Carlo, þar af þrjátíu og átta inni á staðnum sjálfum.

Á sama tíma voru brotin fjörutíu og þrjú í og við Mónakó, þar af sautján inni á sjálfum staðnum. Brotunum hefur farið fjölgandi síðan. Íbúasamtök miðborgar hafa skorað á borgaryfirvöld að veita staðnum ekki áframhaldandi rekstrarleyfi.

Í umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar, sem borgarráð samþykkti í gær, segir að eigendur staðanna hafi ekki nýtt það tækifæri sem hið tímabundna rekstrarleyfi gaf til að bæta ástandið. Brotum og kvörtunum hafi þvert á móti fjölgað.

Að auki sé ekki hægt að horfa fram hjá því að líkamsárás inni á Monte Carlo endaði með því að fórnarlamb hennar lést af sárum sínum. Því var mælst til þess að borgarráð gæfi  neikvæða umsögn á framlengingu rekstrarleyfis. Samþykkt borgarráðs þýðir að lögreglustjórinn getur ekki lögum samkvæmt framlengt rekstrarleyfið.

Jónas Örn Jónasson lögmaður eiganda staðanna segir ljóst að ef leyfið verði ekki framlengt, verði ákvörðunin kærð til innanríkisráðuneytisins.