Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Molta ónothæf vegna ótta við riðu

05.11.2011 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Molta er verðmæt afurð en hún er unnin úr lífrænum úrgangi og ætti að nýtast sem áburður ef allt er með feldu. Íbúar í mörgum sveitarfélögum landsins hafa lagt mikið á sig viðað flokka lífrænan útgang frá öðru sorpi. Þeir hafa meira að segja keypt dýra maíspoka undir lífræna sorpið.

En nú er komin upp óvissa um örlög úrgangsins.

Það vantar ekki fyrirhöfnina og kostnaðinn við moltugerðina og því er mikilvægt að hún nýtist sem verðmætur áburður. Lífræna sorpið er hitað og látið gerjast en sýna verður fram á að það nái 70 gráðu hita í 60 mínútur til að eyða sýklum.

Yfirdýralæknir segir að mörgum moltugerðum hafi reynst erfitt að sýna fram á þetta og einnig að enginn sláturúrgangur sé í moltunni.

Hann segir að einungis jarðgerðarstöðin í Eyjafirði hafi náð þeim áfanga. Óttast er að riðusmit geti borist í moltuna úr heila eða mænu fullorðins sauðfjár. Þetta veldur því að moltugerð á Fljótsdalshéraði og víðar fær ekki starfsleyfi og á meðan er ekki hægt að nýta moltuna sem skyldi.

„Við höfum ekki fengið leyfi hjá Matvælastofnun til að afhenda moltuna, aðallega vegna hræðslu við að það séu smitefni í moltunni úr sláturafurðum. Fólk á endilega að halda áfram að flokka eins og hefur verið og við vonumst til að bráðlega fáum við að nýta moltuna eins og til stóð í upphafi,“ segir Freyr Ævarsson, verkefnisstjóri Umhverfismála hjá Fljótdalshéraði.

En hann segir moltuna sem þegar er til ekki endilega ónothæfa. „Það verða tekin sýni og þegar þau sýni hafa verið rannsökuð þá kemur í ljós hvort það verður hægt að nota moltuna.“