Mokar fyrir ellilífeyrisþega

23.03.2020 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Verktaki á Akureyri býður ellilífeyrisþegum ókeypis snjómokstur næstu daga vegna ástandsins í samfélaginu. Hann segir mikla ánægju með framtakið og ekki hafi staðið á viðbrögðum.

Finnur ehf., verktakafyrirtæki á Akureyri, auglýsti í morgun ókeypis mokstur á einkabílastæðum fyrir ellilífeyrisþega í bænum. Finnur Aðalbjörnsson, eigandi fyrirtækisins, segir ástæðuna afar einfalda: Það séu allir að reyna að gera eitthvað og hjálpast að á þessum tímum og þetta hafi verið einfalt fyrir þá að gera. Gamla fólkið eigi þetta skilið enda sé það búið að þræla fyrir okkur alla ævi og búa til þetta samfélag sem við búum í.  

Þótt það sé ekki langt síðan auglýsingin birtist á Facebook segir Finnur að það hafi ekki staðið á viðbrögðum. Töluverður fjöldi fólks sé þegar búinn að hringja og mikil ánægja virðist með framtakið. 

Smá hlé eftir langa törn

Mikið hefur mætt á mokstursmönnum í allan vetur og þegar Finnur er spurður hvort þeir geti bætt við verkefnalistann segir hann það mesta yfirstaðið í mokstri í bili, bærinn sé orðinn vel fær og móðir náttúra taki þetta mikið sjálf núna. Kórónuveiran hafi áhrif á starfsemi þeirra eins og annarra. Hann segir búið að skipta fyrirtækinu upp í fjóra hópa sem eigi ekkert samneyti hver við annan. Þeir séu allir í vinnu á sama tíma, en ekki á sama stað og eigi því ekkert að hittast. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi