Möguleikar í hitaveituröri

Mynd með færslu
 Mynd:

Möguleikar í hitaveituröri

15.06.2013 - 19:59
Ungmenni á Grenivík sjá mikla möguleika í hitaveituröri í fjörunni við bæinn. Þau hafa óskað eftir því að sveitarstjórnin kanni möguleikann á því að nota heita vatnið til að gera ylströnd.

Athugul ungmenni á Grenivík fengu hugmynd þegar þau voru að leik við sjóinn þar. Guðni Sigþórsson eitt ungmennanna sagði þau hafa fengið þessa hugmynd í fjöruferð: „Við vorum bara í fjöruferð og svo fundum við heitt vatn sem rann þarna og við vorum að pæla í því hvað væri hægt að gera við það. Og við vorum að hugsa um að gera heitan pott, eða sundlaug eða kannski ylströnd. Við sendum bréf til sveitarstjórnarinnar og það kom einhver maður frá Norðurorku sem talaði um þetta.“

Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps segir hitaveiturörið koma frá Reykjum í Fnjóskadal: „Árið 2007 leiddi Norðurorka hitaveitu til okkar niður á Grenivík, þetta eru alveg 50 kílómetrar, og þetta kemur í rauninni frá Reykjum í Fnjóskadal og svo kólnar vatnið svo lítið á leiðinni þannig að þarf að vera blæðing hérna og þetta er töluvert magn af heitu vatni sem bara rennur hér til sjávar og okkur fyndist voðalega gaman ef það væri hægt að gera eitthvað nýtilegt og gagnlegt við þetta vatn.“

Guðný segir yngstu íbúa sveitarfélagsins vera duglega að senda inn hugmyndir og ábendingar.  Hún segir það jafnframt vera skemmtilegustu erindin og þau vera hugmyndarík þar sem börnin séu ekki alltaf að velta sér uppúr sömu hugmyndum og eldri kynslóðir.