Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mögulega „vænlegast að halda aftur kosningar“

14.12.2016 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að það sé sífellt að verða vænlegri lausn á vandræðunum við að mynda meirihlutastjórn að gera einhverjar bráðabirgðaráðstafanir - annað hvort minnihluta-eða utanþingsstjórn - og halda kosningar að nýju í vor. Hann segir stöðuna flókna en mögulega sé hægt að greiða úr henni og ná mönnum saman ef þeir sannmælast um að reyna nýjar kosningar.

Þetta kom fram í viðtali við Sigmund Davíð í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni nú síðdegis.  Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nefnt að þetta sé einn möguleikinn og það hefur Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, einnig gert.

Einn og hálfur mánuður er nú liðinn frá kosningunum en til þeirra var boðað eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra vegna Panamaskjalanna. 

Engar formlegar stjórnarmyndunarviðræður eru í gangi. Forystumenn Pírata skiluðu stjórnarmyndunarumboðinu á mánudag en þeir reyndu að mynda fimmflokka-stjórn frá miðju til vinstri með Viðreisn, Bjartri framtíð, Samfylkingu og VG við samningaborðið.

Sigmundur sagði í útvarpsþættinum að menn ættu nú að líta aftur á bak og læra af reynslunni - það hefði verið dómadagsvitleysa að halda þessar kosningar í október og flestum hefði verið það ljóst í sumar.  „Sumir sáu kannski í þessu tækifæri fyrir sjálfan sig en aðrir voru hræddir við að styggja einhverja æsingamenn. Það er aldrei gott þegar menn láta stjórnast af ótta en það var svolítið tilfellið og þá lenda menn í stöðu eins og þessari.“

Sigmundur, sem fékk stjórnarmyndunarumboðið eftir kosningarnar 2013, segir að þegar viðræður um myndun nýrrar stjórnar hafi staðið svona lengi skipti umboðið engu máli heldur hvaða möguleikar séu í boði.  Hann segir að það verði ekkert hlaupið að því að mynda nýja stjórn - einhverjir hafi haldið að VG myndi setja eitthvað leikrit á svið en mynda síðan stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Það hafi hins vegar komið á daginn að VG væri tvískiptari flokkur en menn reiknuðu með. „Mér finnst það verða sífellt líklegra að það sé vænlegast að halda nýja kosningar.“

Sigmundur segir að þá yrðu gerðar einhverjar bráðabirgðaráðstafanir - hugsanlega myndi forsetinn leggja eitthvað til í þeim efnum sjálfum. Sigmundur nefndi mögulega stjórn með utanþingsráðherrum og fulltrúum þeirra flokka sem væru reiðubúnir til að verja slíka stjórn falli.  En síðan væri líka minnihlutastjórn en vandséð væri hvernig slíkt myndi ganga miðað við núverandi aðstæður.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV