Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mögulega komnar með kvóta í október

Mynd með færslu
 Mynd:
Byggðastofnun hefur auglýst eftir umsóknum um viðbótaraflamark á sex stöðum á landinu. Ef allt gengur að óskum gætu viðkvæmar sjávarbyggðir eins og Raufarhöfn og Flateyri verið komnar með kvóta í október.

Alþingi samþykkti í sumar að Byggðastofnun skyldi næstu fimm fiskveiðiár hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 1.800 þorskígildislestum til að styðja byggðarlög sem eiga í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun hefur nú greint stöðu einstakra byggðarlaga og á grundvelli þeirrar vinnu auglýst eftir samstarfsaðilum um nýtingu aflaheimildanna á sex stöðum á landinu; Breiðdalsvík, Drangsnesi, Flateyri, Raufarhöfn, Suðureyri og Tálknafirði.

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, segir að svo gæti mögulega farið að allir þessir staðir fengju kvóta. Hann segir það endanlega ráðast af þeim umsóknum sem stofnunni berast og gæðum þeirra. Meðal þess sem þar er litið til er að áform um útgerð og vinnslu séu trúverðug og að starfsemin dragi sem mest úr óvisssu um framtíðna.

„Það sem skiptir auðvitað mestu í þessu er að við séum að tryggja heilsársatvinnu í sjávarútvegi. Það hafa verið sveiflur víða í vinnslum sem valda mikilli óvissu og koma losi á fólk,“ segir hann. Umsóknarfrestur er til 7. október og það stendur til að klára málið hratt. Aðalsteinn segir að ef allt gangi að óskum sé ætlunin að reyna að ljúka samningum á stöðunum í október.