Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Móðir fórnar fjölskyldunni fyrir listina

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd

Móðir fórnar fjölskyldunni fyrir listina

22.12.2017 - 17:29

Höfundar

Í annarri skáldsögu Yrsu Þallar Gylfadóttur, Móðurlíf, blönduð tækni, er sagt frá Kamillu, dóttur Sirríar sem var róttækur framúrstefnulistamaður á síðari hluta 20. aldar en lést fyrir aldur fram.

Sirrí þessi var fræg á Íslandi og mikils virt listakona, en líka fræg fyrir róstursamt líferni og að hafa ung yfirgefið börnin sín til að sinna listinni. Þegar fyrir dyrum stendur stór og mikil yfirlitssýning á verkum hennar er Kamilla dóttir hennar fengin til að aðstoða við að leita uppi verk og upplýsingar um móður sína. Það leiðir hana á spor fólks sem þekkti móður hennar og bréfasafns, sem fær hana til að líta á samskipti þeirra öðrum augum.

„Þetta er bók sem er erfitt að tala um því maður vill ekki ljóstra upp um fléttuna,“ segir Þorgeir Tryggvason. „En þetta tilfinningalega uppgjör Kamillu og hvernig hún skilur að móðir hennar hafi fórnað fjölskyldu fyrir listina, það víkur fyrir nokkuð farsakenndri sögu í seinni hlutanum.“ Hann telur að taka hefði þurft ákvörðun um að leggja bara áherslu á annað efnið: „Þetta rekst svolítið hvort á annars horn finnst mér.“

Sunna Dís Másdóttir er sammála Þorgeiri um að þessi tvískipting, blandaða tækni, gangi ekki upp. Henni finnst fyrri hluti bókarinnar mun áhugaverðari þar sem núningur milli fjölskuldulífs og listar sé krufinn. „Hvað með konu sem fórnar fjölskyldunni fyrir listina, hvernig er það öðru vísi en þegar karlmaður gerir það? Má það? Hvað gerist í sambandinu og í listinni? Þetta finnst mér virkilega spennandi rannsóknarefni.“ Í síðari hlutanum er svo farið á aðra braut, hvort hægt sé að teikna upp sannfærandi mynd af látinni manneskju og hvort það séu margar hliðar á sannleikanum. „Þá fannst mér fjara út, ég hefði vilja sterkari fókus og meira púður í hitt rannsóknarefnið. Hvaða áhrif hafði það á listakonuna að yfirgefa börnin sín, hvaða áhrif hafði það listina, og á dótturina Kamillu? Ég vildi heyra meira af þessu.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Íðilfagur Öfugsnáði gengur fullkomlega upp

Bókmenntir

Aðdáendur munu kalla eftir fleiri bókum

Bókmenntir

Móðir, listakona, kona

Menningarefni

Dansað út úr röðinni