Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

MMR: Bjartsýni um gengi landsliðsins á HM

epa06812963 Supporters of Iceland during the FIFA World Cup 2018 group D preliminary round soccer match between Argentina and Iceland in Moscow, Russia, 16 June 2018.
 Mynd: EPA - RÚV

MMR: Bjartsýni um gengi landsliðsins á HM

18.06.2018 - 16:39
Samkvæmt nýrri könnun MMR, sem gerð var 12.-18. júní, eru Íslendingar almennt nokkuð bjartsýnir um gengi landsliðsins á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu sem nú fer fram í Rússlandi. Meirihluti aðspurðra taldi líklegt að Ísland komist upp úr riðlakeppninni, eða um 59 prósent. Einungis tvö prósent töldu þó líklegt að Ísland sigraði í keppninni.

Fólk á miðjum aldri spáði landsliðinu síst velgengni, en nær helmingur aðspurðra milli 30 og 67 ára taldi að landsliðið kæmist ekki upp úr riðlakeppninni. Aldurshóparnir 18-29 ára og 68 ára og eldri voru öllu jákvæðari um árangur liðsins og töldu nær sjötíu prósent úr hvorum hópi um sig að Ísland kæmist að minnsta kosti í sextán liða úrslit. 

Mynd með færslu
 Mynd: MMR

Lítill munur var milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, en mikill eftir heimilistekjum. Meðal lægri tekjuhópa var meiri bjartsýni um árangur landsliðsins, en meðal hinna tekjuhærri. Að sama skapi var meiri svartsýni að gæta meðal háskólamenntaðra en meðal þeirra sem einungis höfðu grunnskóla- eða stúdentspróf.  

Stuðningsmenn Miðflokksins voru bjartsýnastir allra en um áttatíu prósent þeirra sem sögðust fylgjandi flokknum spáðu því að Ísland kæmist í það minnsta í sextán liða úrslit. Þeir sem sögðust stuðningsmenn Flokks fólksins höfðu þó mesta trú á sigurlíkum landsliðsins, en sjö prósent þeirra töldu að Ísland yrði sigurvegari heimsmeistaramótsins í ár.