Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mjólkurkvótinn lagður niður

04.01.2016 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson - RÚV
Í drögum að nýjum búvörusamningi er gert ráð fyrir að leggja niður kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. Það er í samræmi við ályktun aðalfundar Landssambands kúabænda á þessu ári. Eyfirskir kúabændur hvetja nú til þess að samninganefnd Bændasamtakanna bæti í samningsdrögin nýju stýrikerfi til að koma í veg fyrir offramleiðslu og verðfall.

Kvótakerfi var á sínum tíma sett á vegna offramleiðslu á mjólk. Fyrir tveimur árum hafði sala á mjólkurvörum aukist svo að farið var að greiða fullt verð fyrir mjólk umfram kvóta. Verð á kvóta hefur síðan lækkað og tækifæri skapast til að hverfa frá kerfinu. En á sama tíma er mjólkurframleiðsla nokkru meiri en þörf er fyrir. Þetta hefur leitt til líflegrar umræðu kúabænda. Þingeyskir kúabændur lýsa stuðningi við samningsdrögin, en eyfirskir hvetja samninganefnd Bændasamtakana til að bæta inn í þau nýju stýrikerfi fyrir framleiðslu, vegna hættu á offramleiðslu og verðfalli. Nýr búvörusamningur tekur gildi eftir rúmt ár.

„Kvótakerfið feikilega dýrt“

Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda segir að drögin geri ráð fyrir því að breytingin verði á nokkrum árum. Meginástæðan fyrir því að horfið sé frá kvótakerfinu sé að það sé feykilega dýrt. „Það rennur mjög hátt hlutfall af stuðningnum út úr greininni. Það er hlutur sem ekki verður búið við lengur. Við framsal á milli búa þá fara út úr greininni og hafa farið á undanförnum árum gríðarlega miklir fjármunir, bæði til fyrrverandi bænda og síðan fjármálastofnana.“ Hann segir að ljóst sé að kvótakerfið henti ekki aðstæðum nú. Auknar kröfur um aðbúnað hafi meðal annars mikinn kostnað í för með sér.

„Margar aðferðir til stýringar“

Baldur segir að áhyggjur af offramleiðslu og verðfalli séu skiljanlegar. Hlusta beri á slík sjónarmið og taka tillit til þeirra. En framleiðslan þurfi að vera umfram þörf hvers tíma til að mæta sveiflum á markaði. Auðvitað sé matsatriði hve mikil umframframleiðsla eigi að vera. Hann telji að þeir tíu milljón lítrar sem séu umfram nú séu ekki áhyggjuefni. „Það er hins vegar hægt að hafa áhrif á framleiðsluna og magn hennar með ýmsum hætti og það er beitt margvíslegum aðferðum til þess víða um heim. Ég held að það sé verkefni samninganefndarinnar núna að finna farsæla lausn á því að framleiðslan verði í samræmi við þarfir á innlendum markaði og þá aukningu í útflutningi sem auknir tollkvótar geta haft í för með sér“.  

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV