Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mjög slæmt að það sé kvóti á mannréttindi

26.04.2018 - 22:00
Mynd: RÚV / RÚV
Það mjög slæmt að settur sé kvóti á mannréttindi, segir Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður NPA-miðstöðvarinnar. Meðal annars vegna þess sé aðeins hægt að tala um lögfestingu NPA-frumvarpsins í dag sem áfangasigur í baráttu fatlaðs fólks. Hann kallar eftir því að sveitarfélögin geri samninga um notendastýrða persónulega aðstoð við alla sem bíða, óháð því hvort mótframlag frá ríkinu fylgi í fyrstu.

„Það er ekki afsakanlegt hjá sveitarfélögunum að bíða lengur þótt mótframlag liggi ekki fyrir á fyrsta ári,“ sagði Rúnar í Kastljósi í kvöld. Í bráðabirgðaákvæði laganna segir að ríkið greiði mótframlag fyrir 80 samninga á þessu ári og að á næsta ári hækki sú tala upp fyrir hundraðið. Rúnar tók þó fram að lögfesting NPA væri gífurleg bylting fyrir allt fatlað fólk á Íslandi.

Hann kallaði einnig eftir réttindalöggjöf í takti við þá sem sé í gildi í Bandaríkjunum. „Sem tryggir aðgengi fólks að þjóðfélaginu, gegn fýsískum hindrunum og þess háttar,“ sagði Rúnar. „Nú erum við að verða komin með þjónustuna en við þurfum líka að komast um, komast á vinnustaði til að geta fengið vinnu til dæmis.