Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Mjög ánægður með niðurstöðuna

01.12.2012 - 16:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, er ánægður með niðurstöðu kjördæmisþings Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, en hann hlaut 63% atkvæða í fyrsta sæti á lista flokksins í kjördæminu fyrir komandi Alþingiskosningar.

„Ég er auðvitað mjög ánægður með þessa niðurstöðu. Ég skal viðurkenna að ég hafði smá áhyggjur af umræðunni sem fór af stað undanfarna daga um að þetta væri allt frágengið, sem þýddi að erfiðara var að fá fólk til að mæta og kjósa. En það slapp allt til þannig að ég er mjög sáttur,“ sagði Sigmundur stuttu eftir kosninguna.

Formaður og Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, öttu kappi um fyrsta sætið og komu 35% atkvæða í hlut Höskulds. Þegar niðurstaðan lá fyrir ákvað Höskuldur að bjóða sig fram í annað sætið. Hann hlaut í það sæti 63% atkvæða.

„Ég var ánægður með að fá þó það sem ég fékk, taldi það viðunandi árangur og hafði barist fyrir mínu. Ég náði hins vegar glæsilegum árangri í annað sætið. Ég vissi að það yrði við ramman reip að draga þegar ég atti kappi við formann flokksins en ég er sáttur með mitt og við höldum glaðir út í kosningabaráttuna við framsóknarmenn,“ sagði Höskuldur.

Hann segist ekkert hafa leitt hugann að því að bjóða sig fram til formanns eða varaformanns Framsóknarflokksins. „Nú er formaður kominn í þetta kjördæmi. Ég held að það verði mörg brýn verkefni hér, það á tíminn einn eftir að leiða í ljós en ég hef nú sýnt það í gegnum tíðina að ég vilji leiða og vera í forystu,“ segir Höskuldur.

Líneik Anna Sævarsdóttir, skólastjóri á Fáskrúðsfirði, hlaut þriðja sæti, fékk 58% atkvæða. Þórunn Egilsdóttir varð í því fjórða og Hjálmar Bogi Hafliðason í því fimmta.