Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mjófirðingar þurfa að treysta á bátatalstöðvar

25.12.2018 - 20:25
Miklar tafir hafa orðið að því að koma á öruggu fjarskiptasambandi við íbúa Mjóafjarðar. Í vondum veðrum bilar gjarnan örbylgjusamband við staðinn og þá eru talstöðvar í bátum eina tengingin við umheiminn.

Á veturna er ferjan lífæð Mjófirðinga enda vegurinn lengst af lokaður vegna snjóa. Ferjan fer tvisvar í viku og eftir klukkutíma siglingu frá Neskaupstað blasir Brekkuþorp í Mjóafirði við. Þar búa nú 10 manns. Ferjan flytur allt og íbúarnir fá jólakostinn í vel merktum kössum í fiskikari. Þeir búa ekki aðeins við tregar samgöngur heldur eru fjarskiptin í molum. „Það má nánast ekki verða vont veður þá fellur símasamband hér niður og þegar ég segi símasamband þá meina ég allt samband. Gemsi, tölvusamband og fastlína. Það er náttúrlega algjörlega óviðunandi að menn hafi ekki símasamband á milli bæja einu sinni hér því við getum ekki náð í næsta bæ. Þetta eru loftnetin mín. Gervihnattamóttakara og svoleiðis dæmi og talstöðvarloftnet sem við notum til að tilkynna okkur úr og í höfn og nýtust okkur líka í sambandsleysinu að láta vita að við séum sambandslaus,“ segir Sævar Egilsson, skipstjóri á áætlunarbátnum Björgvin SU 41.

Sigfús Vilhjálmsson hafnarvörður fer inn í sinn bát og sýnir okkur hvernig talstöðvarsambandið virkar. Hann kallar í Vaktstöð siglinga.

Sigfús: Nes 68 41,

Vaktstöð siglinga: 68 41.

Sigfús: Já góðan og blessaðan daginn. Þetta er nú hérna í Mjóafirði eins og þú kannski veist. En það er nú allt í góðu lagi hérna hjá okkur núna, ekkert vesen með símann eins og þið hafið nú oft bjargað okkur með þegar hefur verið sambandslaust að láta þá vita af því. En ég ætlaði nú bara hreinlega að þakka ykkur fyrir gott samstarf og óska ykkur gleðilegrar hátíðar.

Vaktstöð siglinga: Já ég tek undir það, gleðileg jól. Og þú hefur samband aftur bara hvenær sem er.

Sigfús: Bestu þakkir og gleðileg jól vinur.

Eina tengingin til Mjóafjarðar er í gegnum örbylgjuloftnet sem veldur því að nethraði er lítill og tengingin stopul. Til stóð að leggja ljósleiðara síðasta sumar en ekkert varð af því þar sem ekki samdist um línuleið við landeiganda í Austdal. Neyðarlínan og RARIK sem leggur rafstreng í leiðinni meta nú kostnað við þá leið sem landeigandi vill fara og leita lausna. Fúsi á Brekku eins og hann er kallaður hefur verið beðinn að brjótast inn í fjarskiptaskúrinn með kúbeini til að reyna að koma fjarskiptum í lag. „Það eru allir hundsvekktir þegar sambandið fer og þá er náttúrlega kolvitlaust veður. Þetta er mjög bagalegt af því að eins og allir vita þá fer allt í gegnum þessar tölvur. Ég er nú reyndar nokkuð laus við það en það er nú sama. Allir aðrir þeir stunda það auðvita og bæði í sambandi við lærdóm og allt bara. Það er bara þannig og það er ekki gott en þetta stendur til bóta. Við trúum því,“ segir Sigfús.