Mjaltastúlkan á hafsbotni

Mynd: RÚV / RÚV

Mjaltastúlkan á hafsbotni

26.12.2016 - 20:15

Höfundar

„Við höfum fengið það staðfest með aldursgreiningu á timbri úr flakinu að þetta er í raun skipið sem talið var að lægi þarna,“ segir Kevin Martin, neðansjávarfornleifafræðingur, en hann hefur, ásamt fleirum rannsakað flak hollenska kaupfarsins Melckmeyt sem liggur á botni gömlu hafnarinnar í Flatey.

Melckmeyt, eða Mjaltastúlkan, lá fullfermt í höfninni í Flatey í september árið 1659 og átti að sigla til Kaupmannahafnar á vegum danska kaupmannsins Jónasar Trellund í Flatey. Skipið komst aldrei út úr höfninni því það skall á ofsaveður og Mjaltastúlkan lamdist í klettana á Hafnareynni og sökk.

Getið er um skipsskaðann í annálum frá þessum tíma þannig að alltaf var vitað um tilvist flaksins í höfninni. Skipið fannst hins vegar ekki fyrr en árið 1992 en það voru kafararnir Sævar Árnason og Erlendur Guðmundsson sem fundu Mjaltastúlkuna í höfninni. Bjarni Einarsson fornleifafræðingur rannsakaði skipið síðan árið eftir.

„Við vonumst til að geta púslað saman sögu skipsins eins og mögulegt er og það er tilgangur rannsóknarinnar, “ segir Kevin.

Landinn kafaði niður að Mjaltastúlkunni. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér.