Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mjaldrarnir fá kannski félagsskap í kvína

24.08.2017 - 08:30
Mynd með færslu
Mjaldur. Mynd: S.Snodgrass - Wikipedia
Tveir mjaldrar sem Vestmannaeyingar stefna á að flytja inn frá Kína verða ýmist hafðir í sjókví eða í laug á landi. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, fagnar því að leyfi hafi fengist bæði frá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun fyrir innflutningi dýranna. Hann vonar að kínversk yfirvöld veiti útflutningsleyfi svo verkefnið verði að veruleika. Elliði segir hugsanlegt að fleiri hvalir verði í sjókví við Eyjar.

Mjaldraverkefnið er unnið í samvinnu Vestmannaeyjabæjar og evrópska skemmtifyrirtækisins Merlins, sem meðal annars rekur Legoland. Ef allt gengur eftir ætti að vera hægt að taka á móti hvölunum sumarið 2019. 

Elliði er bjartsýnn á að útflutningsleyfið fáist frá Kína. Þrjú ár eru síðan vinna við innflutninginn hófst. „Þetta er heljarinnar mikið verkefni. Þetta er í senn dýravelferðarverkefni og ferðaþjónustuverkefni. Þetta eru sýningardýr og verða það áfram en við allt aðrar og mannúðlegri aðstæður,“ segir Elliði. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Lundapysjuathvarf verður í landi
Dýrin verða ýmist í sjókví við Klettsvík en einnig í stórri hvalalaug sem stendur til að byggja í landi. Mjaldrarnir verða settir í laugina ef þeir þurfa aðhlynningu eða ef veður er vont. Í landi verður einnig sett um stórt fiska- og sædýrasafn.  „Það er líka unnið í því að koma upp lundapysjuathvarfi,“ segir Elliði og bætir við að fyrirtækið Merlin sem mjög hrifið af framkomu Eyjamanna við pysjurnar.

Elliði segir opið fyrir þann möguleika að fleiri hvalir verði í sjókvínni við Klettsvík. „Merlin er fyrst og fremst að flytja þessi dýr sem þeir eiga og eignuðust í gegnum kaup á garði í Sjanghæ. Það er gegn stefnu þeirra að halda svona dýrum í steinsteyptum laugum. Helst vildum við geta sleppt þeim en það er ekki hægt. Þetta hafa verið sýningardýr alla ævi og eru háð manninum og verða það áfram. En ég veit til þess að önnur stór fyrirtæki á þessu sviði hafa haft samband við Merlin og kannað möguleika á að koma sínum dýrum í þessar aðstæður en það er nú svona meira framtíðarmúsík,“ segir Elliði. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Merlin rekur m.a. Legoland, SeaLife, Madam Tussauds-safnið og London Eye.  „Þeir tóku á móti 62 milljónum gesta í fyrra. Þetta er næststærsta skemmtifyrirtæki í heimi á eftir Disney. Þannig að það veit hvað það er að gera,“ segir Elliði.

Hvalir, lundar og eldfjöll á 12 ferkílómetrum
Verkefnið sé afar viðamikið. „Þetta er fordæmalaust. Svona hefur ekki verið gert áður á þennan máta. Við erum að sjálfsögðu stolt af því að vera valin til samvinnu við svona stórt fyrirtæki. Um leið eigum við mikið undir í ferðaþjónustu. Það að við getum auglýst allt árið um kring geti fólk skoðað hvali, lunda og eldfjöll á 12 ferkílómetrum, það verður hvergi jafnað,“ segir Elliði.