Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Misvísandi skilaboð ESB um viðræður

05.03.2014 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Jose Manuel Barroso, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, sagði á blaðamannafundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í júlí í fyrra, að íslensk stjórnvöld þyrftu að taka ákvörðun um framhald viðræðna. Stækkunarstjóri ESB lýsti því hins vegar yfir, síðast í janúar, að ESB væri tilbúið að halda áfram.

Barroso lét þessi orð falla 16. júlí í fyrra eftir fund sinn með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra í Brussel. (Sjá ræðu hans hér).

Þá var liðinn mánuður frá því að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnti Evrópusambandinu að formlegt hlé hefði verið gert á viðræðum. Barroso sagði að það væri í þágu bæði ESB og Íslands að ákvörðun um framhaldið yrði tekin að vel ígrunduðu máli og á hlutlægum forsendum. 

„En klukkan tifar, og það er í þágu okkar allra að þessi ákvörðun verði tekin án frekari tafa. Þannig að skilaboð mín í dag eru skýr: ef Ísland vill, þá erum við tilbúin að halda áfram aðildarviðræðum, og ég er viss um að þar verði hægt að taka tillit til sérstöðu Íslands.“ 

Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, flutti 16. október skýrslu sína um stækkunarmál frammi fyrir utanríkismálanefnd Evrópuþingsins - þar sem hann sagði að þótt aðildarviðræðurnar væru stopp, hefði ESB ekki slitið viðræðum. Óskuðu íslensk yfirvöld eftir því, væri framkvæmdastjórnin hvenær sem er tilbúin að halda þeim áfram. Füle ítrekaði þetta svo í ræðu sem hann hélt frammi fyrir Evrópuþinginu 15. janúar síðastliðinn, þar sem hann sagði að framkvæmdastjórnin væri tilbúin og fær um að ljúka aðildarviðræðum.