Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mistókst að einfalda umsóknir fyrir Airbnb

30.01.2017 - 22:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki tókst að einfalda umsóknarferli þeirra sem bjóða upp á heimagistingu, eins og markmið var með lagabreytingu um áramótin. Þetta segir framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Fulltrúar eftirlitsins þurfi enn að fara í vettvangsskoðun á hvern einasta stað þar sem seld er heimagisting.

Um áramótin tóku gildi ný lög um heimagistingu. Í athugasemdum við frumvarpið kom fram að tilgangurinn væri að einfalda umsóknarferli þeirra sem bjóða upp á heimagistingu. Fallið var frá kröfu um rekstrarleyfi sýslumanns og í staðinn er nóg að fá skráningu hjá sýslumanni.

Reykjavíkurborg fékk fyrirtækið AirDNA til að gera úttekt á fjölda þeirra sem bjóða upp á heimagistingu í höfuðborginni og reyndust þeir vera um 2.500 talsins í nóvember í fyrra. Þá hafa kannanir sýnt að 3-4.000 manns bjóði upp á heimagistingu á landinu öllu. Í síðustu viku höfðu 37 skráð heimagistingu  hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins en samkvæmt reglugerð er sá sýslumaður eftirlitsaðili með allri heimagistingu á landinu.

„Það veldur okkur áhyggjur að einungis nokkrir tugir einstaklinga af nokkur þúsund á landsvísu séu búnir að skrá sig,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar. 

Áður en fólk getur fengið skráningu hjá sýslumanni þarf að fá starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd. Árni Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segir að eftirlitið sé ekki að tefja umsóknir. Það séu ekki þúsundir umsókna sem bíði. „Nei, það fer fjarri því. Það er einhver smá skafl hér,“ segir Árný. Þannig að það eru greinilega einhverjir ennþá með svarta atvinnustarfsemi? „Já, miðað við þetta, greinilega mjög margir,“ segir Árný.

Árný segir að núverandi fyrirkomulag sé alls ekki einfaldara en það gamla. Betra hefði verið að fella niður kröfuna um starfsleyfi heilbrigiðiseftirlits. „Það hefðum við viljað sjá sem raunverulega einföldun. Því þetta er í raun og veru næstum því sami hlutur og áður. Skráning hjá sýslumanni á móti rekstrarleyfi sýslumanns, þetta minnkar ekkert flækjustigin neitt voða mikið því fólk þarf eftir sem áður að byrja hjá okkur,“ segir Árný. „Og við þurfum þá að koma í úttekt á þessu til þess að geta séð að þetta sé í lagi,“ segir Árný. 

Þannig að þessi lagabreyting um áramót hún varð ekki í reynd þessi einföldun sem hún átti að vera? „Nei, ég lít ekki þannig á það, ekki eins og staðan er núna,“ segir Árný.